Eldgosinu á Fimmvörðuhálsi lokið

Miklar brennisteinsgufur leggur af hrauninu á Fimmvörðuhálsi yfir á Bröttufönn.
Miklar brennisteinsgufur leggur af hrauninu á Fimmvörðuhálsi yfir á Bröttufönn. RAX / Ragnar Axelsson

Eldgosinu á Fimmvörðuhálsi virðist vera lokið. Enginn virkni hefur verið á svæðinu síðan um hádegi í gær. „Þá teljum við sennilegt að þessu sé lokið í bili,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. Ómögulegt sé hins vegar að spá fyrir um það á þessu stigi hvort að gosið muni taka sig upp aftur. 

Jarðvísindamenn munu þó fylgjast áfram með svæðinu, enda segir Magnús Tumi rannsóknum ekki lokið. „Við eigum eftir að kortleggja svæðið og ná yfirsýn yfir magn gosefna.“

Tveir hópar eru staddir upp á Fimmvörðuhálsi í dag. „Annar hópurinn er uppi á Bröttufönn. Þau segja að kyrrð sé yfir svæðinu og enginn virkni. Þar er þó mikil brennisteinsmengun þannig að svíður augun og óþægilegt er að vera nálægt hrauninu.“

Hinn hópurinn er svo staddur niðri í Hrunárgili. „Þar er á sem fellur niður á hraunið og hún kemur 65 gráðu heit undan hrauninu og þar eru því miklar gufur er áin kælir hraunið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert