Landsdómur kallaður saman?

Atli Gíslason, formaður þingmannanefndar, sem nú mun fjalla um skýrslu Rannsóknanefndarinnar, vill ekkert tjá sig um hvort nefndin muni leggja til að landsdómur komi saman. Hann segir stefnt að því að nefndin ljúki störfum fyrir þinglok í lok september. Nú stendur yfir fundur nefndarinnar en rannsóknarnefnd Alþingis sem hófst klukkan níu í morgun.

Nefndin er skipuð 9 þingmönnum og er ætlað að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þá mun nefnd óháðra sérfræðinga, leidd af Gunnari Helga Kristinssyni, skoða þá þætti skýrslunnar sem snúa að brotalömum í stjórnsýslunni.

Það verður hinsvegar á höndum þingmannanefndarinnar að skera út um hvort tilefni sé til að Alþingi höfði mál gegn þeim ráðherrum sem sakaðir eru um vanrækslu í starfi og þá skipa landsdóm skv. stjórnarskrá.

„Við nefndarmenn munum ekki lýsa skoðunum okkar á persónum einstaklinga sem nefndir eru til sögunnar. Það gæti spillt fyrir málinu ef við tökum afstöðu til þess fyrirfram, hún mun hinsvegar birtast í þingsályktunartillögu ef af því verður," sagði Atli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert