Þingmenn Hreyfingar skora á þingmenn að segja af sér

Þingmenn Hreyfingarinnar.
Þingmenn Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmenn Hreyfingarinnar, Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir, skora á þingmenn sem áttu tengsl við ýmis fjármálafyrirtæki og ráðamenn í aðdraganda hrunsins sem og þingmenn sem þáðu umtalsverð fjárframlög frá hinum föllnum bönkum, að segja af sér. Þetta kemur fram í yfirlýsingu þeirra.

„Frá útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hefur krafa almennings um afsögn tiltekinna þingmanna orðið háværari með degi hverjum. Um er að ræða sitjandi þingmenn og ráðherra sem voru ráðherrar í ríkisstjórn haustið 2008 og bera ábyrgð beint eða óbeint á hruninu með aðgerðum eða aðgerðaleysi sínu. Einnig eru uppi kröfur um afsögn þingmanna sem náin tengsl höfðu við ýmis fjármálafyrirtæki og ráðamenn í aðdraganda hrunsins sem og þingmenn sem þáðu umtalsverð fjárframlög frá hinum föllnum bönkum.

Hér er um að ræða:
Bjarna Benediktsson, alþingismann, Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, Einar K. Guðfinnsson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson, þáverandi heilbrigðisráðherra, Illuga Gunnarsson, alþingismann, Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, Kristján L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, alþingismann, Tryggva Þór Herbertsson, alþingismann og fyrrverandi efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, þáverandi umhverfisráðherra og Össur Skarphéðinsson, þáverandi iðnaðarráðherra og staðgengill utanríkisráðherra.

Með hliðsjón af þeim áfellisdómi sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis felur í sér taka þingmenn Hreyfingarinnar heils hugar undir umræddar kröfur og skora á þá þingmenn sem um ræðir að segja af sér tafarlaust.

Eins ættu þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem sátu þingflokksfundi dagana 11. og 18. febrúar 2008 þar sem fram komu upplýsingar um stöðu mála í efnahagslífinu að íhuga stöðu sína, en fundargerðir frá þeim fundum eru á fylgiskjali 10 í gögnum frá Björgvin G. Sigurðsyni í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hafi samsvarandi upplýsingar komið fram á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins ber þeim þingmönnum sem þá sátu einnig að íhuga stöðu sína.

Virðingarfyllst, Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir," segir í yfirlýsingu þingmannanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert