Fréttaskýring: Víðtækustu áhrifin af Lakagígum

Gosmökkurinn rfá Eyjafjallajökli í gær.
Gosmökkurinn rfá Eyjafjallajökli í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Ríflega 200 eldgos hafa orðið á Íslandi á sögulegum tíma, þ.e. frá landnámi, og af þeim hafa áhrif gossins í Laka 1783 verið langsamlega víðtækust. Gosið í Laka er líka mesta hraungos sögunnar, alls 15 km³, en það voru þó þau 115 milljón tonn af brennisteini sem bárust upp í loftið sem hvað mest áhrif höfðu. Áhrifa eldgossins varð sérstaklega vart í Evrópu þar sem það leiddi til kólnandi veðurfars með tilheyrandi uppskerubresti, auk þess að leiða til pesta og hörmunga. Áhrifa þess gætti þó einnig á veðurfar í Bandaríkjunum og raunar víðar um heim, m.a. í Norður-Afríku.

Áhrif annarra íslenskra eldgosa frá landnámi eru talin hafa verið minni, þó að vissulega hafi þeirra orðið vart og loftslag kólnað um stund. Spurningar hafa þó vaknað varðandi gosið í Eldgjá 934. En þau Guðrún Larsen og Þorvaldur Þórðarson segja rannsóknir sínar sýna að áhrif þess hafi verið meiri en Skaftáreldanna og gosið öflugra en áður var talið.

Óvenjulegt hraungos

Ólíkt öðrum íslenskum eldgosum sem íbúar Evrópu hafa fundið fyrir var gosið í Laka hins vegar ekki sprengigos og er óvenjulegt að áhrif hraungoss séu jafn víðtæk. „Yfirleitt þarf sprengigos til að koma brennisteinsefninu upp í gufuhvolfið og það gerir Laka óvenjulega,“ segir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur. Gjóskustrókarnir frá Laka hafi verið meira en kílómetri á hæð. „Þá getur brennisteinninn borist upp í efri hluta gufuhjúpsins.“

Hefði gosið hins vegar verið sprengigos mætti gera ráð fyrir að áhrif þess hefðu orðið enn víðtækari. „Miklu af brennisteininum rigndi bara niður á Íslandi og olli miklum hörmungum hér.“ Móðuharðindin fylgdu í kjölfarið og í þeim drápust meira en 60% af öllum búfénaði. Ríflega 20% fólksfækkun varð einnig á tímabilinu því það dró úr barnsfæðingum og hungursneyð ríkti á árunum 1783 til 1786. Á danska þinginu var meira að segja rætt um að flytja hina 40.000 eftirlifandi Íslendinga til Jótlandsheiða.

Heklugosið hefði stöðvað flug

Gosið í toppi Eyjafjallajökuls sem hófst í fyrradag er því ekki stórt í samanburði að mati Haraldar.

„Í Lakagígum myndaðist gossprunga sem er a.m.k. 25 km löng,“ segir hann og bendir á að hún hafi því verið meira en tíu sinnum lengri en gossprungan nú. „Þar af leiðandi var miklu meiri kvika sem þar kom upp.“

Gosið nú sé líka á mörkum þess að teljast sprengigos og sé t.a.m. mun minna en Heklugosið 1947. „Þá náði gjóskan upp í 27 km hæð og öskufallsins varð vart í Evrópu. Hvítur vikur settist til dæmis á klæði fólks sem var uppábúið á leið í Óperuna í Stokkhólmi.“ Áhrifin hafi enda verið umtalsverð þó að þau hafi ekki verið langvarandi. „Öllum flugvöllum álfunnar hefði líkast til verið lokað, hefðu flugsamgöngur verið með þeim hætti sem þær eru í dag.“

Sprengigosið í Öskju 1875 var umtalsvert öflugra en Heklugosið og á fáar hliðstæður hér á landi á sögulegum tíma, ef frá eru talin Heklugosið 1104 og Öræfajökulsgos 1362. Þá féll allmikil aska á Norðausturlandi og ljóst vikurlag mældist um 20 cm þykkt á Efri-Jökuldal.

„Öskufallið yfir Austfirði og Þingeyjarsýslu var svo mikið að fólk lagði á flótta,“ segir Haraldur. Sautján jarðir eyddust í gosinu, þó aðeins fimm til frambúðar, að því er segir í bók Ara Trausta Guðmundssonar, Íslandseldar. Og var eyðileggingin slík að hún ýtti undir mestu fólksflutninga til Vesturheims sem verið hafa úr þessum landshluta.

Áhrifa Heklugossins 1104 gætti einnig víða um sveitir þó að það sé ekki jafn vel skráð. „Það var ansi mikið gos og úr því kom mikill vikur sem sést enn í dag er komið er inn í Þjórsárdal.“ Stöng og aðrir bæir í Þjórsárdal hafi t.a.m. grafist undir vikri úr Heklu.

Sprengigos varð aftur í Öræfajökli í byrjun 18. aldar og þá hafa orðið sprengigos í bæði Kötlu 1918 og í Eyjafjallajökli 1821.

Varla mælanleg í samanburði

Beinna áhrifa af þessum gosum hér á landi og erlendis hefur þó ekki gætt nema til skamms tíma. Enda kólnar veðurfar ekki vegna öskunnar heldur vegna brennisteinsgassins. „Askan fellur fljótt til jarðar en brennisteinninn getur verið uppi í gufuhvolfinu í 1-2 ár og þá er hann eins og slæða sem endurvarpar sólarljósi frá jörðu og kælir hana. Það er það sem gerðist í Laka og í Tambora í Indónesíu þar sem stærsta sprengigos sem orðið hefur á sögulegum tíma varð 1815.“ Magn gosefna mældist 100 km³, gjóskan náði í 42 km hæð og 400 milljón tonn af brennisteini leituðu upp í andrúmsloftið. 117 þúsund manns létust í kjölfarið og loftslag kólnað um allan heim.

Sprengigosin sem orðið hafa á Íslandi á sögulegum tíma séu vart mælanleg í samanburði. „Gífurlega stór gos urðu hins vegar hér á landi á forsögulegum tíma. Þannig varð stórt sprengigos í Kötlu fyrir 11.000 árum og aska úr því gosi finnst á hafsbotni alla leið suður undir Asóreyjar. Þá varð líka sprengigos í Tindfjallajökli fyrir 54.000 árum og það gerði miklar jarðmyndanir í Þórsmörk, auk þess sem aska úr því barst um Evrópu og suður undir Asóreyjar.“

Haraldur fylgist engu að síður áhugasamur með framvindu eldgosins nú. „Og það er kannski ekki síst fyrir það sem telja má að fylgi í kjölfarið,“ segir hann og vísar til nágrannans Kötlu.

Breyttu veðurfari um allan heim

Þekktustu eldgosin sem talin eru hafa breytt veðurfari um allan heim er ekki mörg, að því er kemur fram í bók Helga Björnssonar Jöklar á Íslandi. Eldgosin voru á eftirtöldum stöðum:

*Vesúvíus á Ítalíu 79 e.Kr.

*Lakagígar 1783

*Tambora í Indónesíu 1815

*Krakatau í Indónesíu 1883

*El Chichôn í Mexíkó 1982

*Pinatubo á Filippseyjum 199

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert