Skilur réttláta reiði almennings

Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson mbl.is/Árni Sæberg

„Það mun taka mig mörg ár að byggja upp mannorð mitt á Íslandi á nýjan leik ef það tekst á annað borð, en ég er staðráðinn í að gera mitt besta til þess. Ég geri hins vegar ráð fyrir að grundvallarreglum réttarríkisins verði framfylgt í meðferð þeirra mála sem tengjast hruninu, sem og við afgreiðslu mála almennt hjá Alþingi og ríkisvaldi," segir Björgólfur í bréfinu.

Bréfið er skrifað í tengslum við afgreiðslu Alþingis á frumvarpi um fjárfestingarsamning við Verne Holdings ehf. vegna gagnavers í Reykjanesbæ, en Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs, er einn af stærstu hluthöfum í Verne Holdings. Er bréfið birt sem fylgiskjal með nefndaráliti iðnaðarnefndar Alþingis.

Segir Björgólfur í bréfinu að lögfesting fjárfestingarsamningsins sé nauðsynleg til að af verkefninu verði.

„Uppbygging atvinnulífsins og erlend fjárfesting er nauðsynlegur þáttur í endurreisn íslensks efnahagslífs. Gagnaverið í Reykjanesbæ fer þar fremst í flokki, og það væri stórkostlegur missir fyrir atvinnuuppbyggingu hér á landi ef ekki yrði af verkefninu. Ef persónuleg aðkoma mín stendur í vegi fyrir að unnt sér að veita fyrirtækinu þá fyrirgreiðslu sem felst í samningnum hef ég ákveðið eftirfarandi:

  1. Ég afsala mér þeim ríkisstyrk sem felst í lögfestingu fjárfestingarsamningsins. Við sölu Verne Holdings ehf. eða greiðslu arðs til mín frá félaginu mun ég greiða til ríkisins þau verðmæti sem felast í gerð samningsins við lögfestingu, að teknu tilliti til eignarhlutar míns í félaginu og greiddra skatta. Ég sem fjárfestir mun því ekki njóta fjárhagslegs ávinnings af fyrirgreiðslu ríkisins.  
  2. Ég mun ekki auka við hlut minn í félaginu og ekki taka leiðandi hlutverk við stjórn þess.

Það er von mín að með þessu sé unnt að tryggja framgang verkefnisins og persóna mín flækist ekki fyrir afgreiðslu málsins," segir Björgólfur í bréfinu.

Iðnaðarnefnd þingsins afgreiddi frumvarpið síðan til 2. umræðu á Alþingi í vikunni og gerir þá breytingartillögu, að  ákvæði verði sett inn í lögin um að Novator falli frá arðgreiðslum sem til koma af skattaívilnunum.

Álit iðnaðarnefndar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert