„Bara ef Jón myndi sjá ljósið“

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi. Kristinn Ingvarsson

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagðist í umræðum á Alþingi um utanríkismál myndu fagna því ef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, myndi „sjá ljósið“ í Evrópumálum. Menn væru of fljótir í allri umræðu um Evrópumál að draga ályktanir af einhverju sem ekki væri fast í hendi. Þjóðin yrði að fá tækifæri til að kveða upp úrskurð um þann samning sem næðist. Það væri hans hlutverk sem utanríkisráðherra að ná sem hagstæðustum samningi fyrir Ísland. Ef að sá samningur yrði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu yrði það „stórt spark í hans breiða afturenda.“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umræðunum að aðildarumsóknin væri keyrð áfram á misskilningi og breiða samstöðu stjórnvalda skorti verulega. Rifjaði Bjarni upp að í umræðum á Alþingi hefðu sjálfstæðismenn lagt áherslu á að rangt væri að fara af stað í aðildarumsókn ef ekki væri breið samstaða allra flokka, og ekki væri lengur breið samstaða meðal þjóðarinnar. Þá hefði molnað úr samstöðunni innan ríkisstjórnarinnar. Sagði Bjarni erlenda þingmenn hafa furðað sig á því á fundum með utanríkismálanefnd að ekki væri einbeittur vilji Alþingis til staðar fyrir aðildarumsókn að ESB. Málið allt hefði verið keyrt áfram á miklum misskilningi.

Sagði Bjarni að utanríkisráðherra legði málið upp eins og Ísland myndi ná frábærum samningi við ESB. Hins vegar væri hætta á að litlar ef nokkrar undanþágur fengjust sökum sérstöðu Íslands. Ákvörðun um að fara í aðildarviðræður hefði verið málamiðlun við myndun ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Bjarni sagði ennfremur að formlega séð væri allt í lagi með stöðuna á viðræðuferlinu við ESB. Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir flokkar ættu aðild að því ferli og þinginu væri gefinn kostur á að fylgjast vel með. Bjarni sagðist hins vegar hafa áhyggjur af málinu. Smátt og smátt væri að koma í ljós að svona ætti ekki að standa að jafn veigamikilli ákvörðun og ríkisstjórnin hefði farið af stað með í Evrópumálum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert