Fréttaskýring: Hátt áfengisverð stuðlar að smygli

Miklar verðhækkanir á áfengi stuðla að smygli og heimabruggi, að sögn Daða Más Kristóferssonar, dósents við hagfræðideild Háskóla Íslands. Samkvæmt smásöluvísitölu Rannsóknaseturs verslunarinnar dróst sala áfengis á föstu verðlagi saman um 31,0% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra og um 18,5% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi var 18,1% hærra í apríl síðastliðnum en í apríl 2009.

Það sem af er árinu dróst sala á áfengi í lítrum talið saman um rúmlega 7,8% miðað við sama tímabil í fyrra og salan var 28,7% minni í apríl en í apríl 2009. Salan hefur ekki verið minni í neinum aprílmánuði síðan 2002. Gert var ráð fyrir að áfengisgjaldið skilaði 2.953 milljónum króna fyrstu fjóra mánuði ársins en raunin varð 2.889 milljónir í ríkissjóð.

Ákveðin þolmörk

Hagfræðingar ganga almennt út frá því að áfengi sé nauðsynjavara. Daði Már segir að þess vegna sé hægt að hækka verð á áfengi umtalsvert án þess að það hafi áhrif á sölu. Hins vegar viti enginn hvar mörkin séu – hvað megi ganga langt í hækkunum. Samt sé ljóst að eftir því sem hækkunin sé meiri þeim mun meiri „svört“ sala eigi sér stað sem smygl og heimabrugg.

„Lítil neysla samkvæmt opinberum tölum um áfengisneyslu á Íslandi og Noregi endurspeglar að einhverju leyti töluvert mikla dulda neyslu,“ segir hann. Daði Már bætir við að sé verðmunurinn á smygluðu áfengi og áfengi í búðum meiri en tjónið, sem smyglarinn getur reiknað með að verða fyrir verði hann tekinn, þá stundar hann þessa iðju. Þetta sé vel þekkt kenning í hagfræðinni.

„Verðhækkanir stuðla þannig að smygli og heimabruggi og ýta þessum viðskiptum að einhverju leyti neðanjarðar,“ segir hann og bendir á að háir skattar hvetji til ólöglegrar iðju eins og „svartrar“ vinnu. „Því meiri sem álögurnar eru því minni eru aukatekjur ríkisins af því að hækka skattana.“

Að sögn Daða Más má halda því fram að áhrif skattahækkana á áfengi 2009 séu ekki að fullu komnar fram og búast megi við því að ríkið hagnist minna á áfengissölu næstu mánuði og ár vegna þessara hækkana. „Ég leyfi mér samt að fullyrða að drykkjan hafi ekki dregist jafn mikið saman,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert