Þurfti að biðjast afsökunar

Björn Valur Gíslason, lengst til vinstri, ásamt fleiri þingmönnum á …
Björn Valur Gíslason, lengst til vinstri, ásamt fleiri þingmönnum á Alþingi. Heiðar Kristjánsson

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, þurfti að biðjast afsökunar á ummælum sínum á Alþingi í dag, eftir að hafa spurt Sigurð Kára Kristjánsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, hvort hann hefði haft tengsl við bresku lögmannsstofuna Mishcon de Reya, sem vann ráðgjafarstörf fyrir íslensk stjórnvöld í Icesave-málinu. Spurði Björn Valur Sigurð Kára Kristjánsson, í nokkuð ásakandi tón, hvort hann hefði þegið greiðslur frá lögmannsstofunni.

Tók hann fram í fyrstu ræðu sinni um málið að hann hefði ekki varað þingmanninn við því fyrirfram að hann myndi bera upp þessa spurningu og því þyrfti Sigurður Kári ekki að svara spurningunni strax, en gott væri ef hann gæti gert það.

Skemmst er frá því að segja að Sigurður Kári, aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og þingmenn fleiri flokka, brugðust ókvæða við þessari fyrirspurn. Neitaði Sigurður Kári því alfarið að hafa haft nokkur tengsl við lögfræðistofuna og að hafa þegið frá þeim neinar peningagreiðslur.

„Nú er mér legið á hálsi og það gefið í skyn að ég hafi þegið fé frá erlendri lögmannsstofu í einhverjum pólitískum tilgangi. Þetta er svo ógeðslegt og ómálefnalegt að ég krefst þess að fá svar frá forsætisráðherra um það hvort að þau ummæli séu ekki vítaverð samkvæmt lögum um fundarstjórn Alþingis," sagði Sigurður Kári.

Sjálfstæðismenn fóru hver á fætur öðrum í ræðustól til að svara Birni Val. Einar K. Guðfinnsson sakaði hann um McCarthy-isma (eftir bandaríska öldungadeildarþingmanninum Joseph McCarthy, sem ofsótti fólk fyrir meintan kommúnisma í Bandaríkjunum á sjötta áratug síðustu aldar) og sagði hann stilla Sigurði Kára upp við vegg, dylgja um að hann væri óheiðarlegur og láta hann svo svara því.

Jón Gunnarsson, Bjarni Benediktsson og Unnur Brá Konráðsdóttir kváðu sér einnig hljóðs og sögðu ummæli Björns Vals einhver þau lágkúrulegustu sem heyrst hefðu á Alþingi. Einnig var spurt hvers vegna forseti þingsins, Árni Þór Sigurðsson, hefði ekki ávítt Björn Val fyrir ummælin.

Óli Björn Kárason krafðist þess af forseta að hann ávítti þingmanninn. „Ef ekki þá er búið að setja hér algerlega nýja staðla í fundarsköpum og ræðulist hér á þingi. Ég krefst þess að það verði gert nú þegar," sagði Óli Björn. „Skömm þín er mikil, kanntu virkilega ekki að skammast þín?" spurði hann Björn Val.

Björn Valur steig aftur í pontu og baðst afsökunar. „Hafi orð mín áðan misboðið einhverjum eða ég gengið gróflega gegn einhverjum í þessum sal, þá biðst ég afsökunar á því." Kvaðst hann hafa spurt spurningar en ekki fullyrt neitt. Hann hefði fengið svör við sínum spurningum og þar með gæti málið fallið niður. Sagði hann það sér ljúft og skylt að biðjast afsökunar, hefðu orð hans móðgað einhvern. „Er þá ekki allt í lagi með þetta mál? Út af hverju er fólk þá að æsa sig hér upp?" spurði hann.

M.a. tóku einnig til máls Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Siv Friðleifsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir og fleiri.

Árni Þór Sigurðsson, formaður þingflokks VG, sat á forsetastóli og stjórnaði fundi þegar þetta fór fram. Tók hann til máls og beindi því til þingmanna að sýna hver öðrum virðingu. Sagðist hann hafa túlkað orð Björns Vals þannig að hann hefði borið fram fyrirspurn, í þeim hefði ekki falist fullyrðing. Þingmaðurinn hefði beðist afsökunar á orðum sínum.

Sagði hann mikilvægt að fara varlega með heimild forseta til að ávíta þingmenn og þyrfti forseti að vera viss í sinni sök ef það ætti að gera. Hann sagðist vonast til þess að þar með væri umræðunni lokið.

Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður.
Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert