Skorast ekki undan ábyrgð

Pétur Blöndal, alþingismaður
Pétur Blöndal, alþingismaður mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Pétur Blöndal, alþingismaður, segir að nokkrir hafi leitað til sín um að bjóða sig fram í embætti formanns. Hann segir það ábyrgð að bjóða sig fram en það sé líka ábyrgð að skorast undan ábyrgð. Pétur tilkynnti í morgun að hann ætlaði að bjóða sig fram í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins.   Fer kosning formanns fram klukkan 13:30 í dag.

Hann segist aldrei hafa beðið um stuðning þegar hann hafi tekið þátt í prófkjörum heldur einungis boðið sig fram. Þetta sé ekki kappleikur heldur lýðræði. Hann sé ekki að bjóða sig fram gegn Bjarna Benediktssyni formanni flokksins, heldur með honum. Fólk eigi að geta kosið og lýðræði skaði ekki neinn.

Pétur fór yfir fyrri störf sín bæði á þingi og í atvinnulífinu. Hann segir verðtryggingu vera nauðvörn og á meðan ekki næst sátt um litla verðbólgu verði lífeyrissjóðir og sparifjáreigendur að fá verðtryggingu á fé sitt.

Pétur sagði frá því hvernig hann hafi varað við krosseignatengslum, stöðu sparisjóða og bankanna löngu fyrir hrun. Ekki hafi verið hlustað á viðvaranir hans. Þær ekki einu sinni ræddar.

Pétur segir að það skorti á framsýni, lausnir og lausnir á vanda.

Hann segir að sjálfsögðu verði að fara að dómi Hæstaréttar varðandi gengistryggðu lánin. Það sé hans vilji að Hæstiréttur felli þá dóma sem fella þurfi innan mánaðar þannig að bæði lánveitendur og lántakendur viti hver staða þeirra er. Það þurfi að skýra nákvæmlega hvað Hæstiréttur átti við og það þurfi að gerast hratt. 

Hugsa þurfi út fyrir kassann, að sögn Péturs þegar kemur að lausnum varðandi fjármálakerfið. Það þurfi að gefa þjóðinni von. Hvernig sjálfstæðismenn vilja sjá íslenskt þjóðfélag eftir 10 ár.

Hann telur ekki rétt að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið nú. Ekki sé rétt að fara inn á hnjánum og gegnum hundalúguna. 

Í skattamálum þurfi að stækka kökuna ,ekki vera upptekin af því hvernig eigi að skipta henni, að sögn Péturs.

Pétur gerði skuldastöðu landa að umtalsefni í framboðsræðu sinni. Hann segir að Ísland hafi alltaf verið skuldamegin - það séu þjóðir sem eigi eignir og vill að Íslendingar breyti um hugsunargang og komist eignamegin. Sveitafélög eigi ekki að safna skuldum og fyrirtæki eigi að vera með jákvætt eigið fé. Heimilin séu byrjuð að leggja fyrir. Ef þetta verði að veruleika þá þurfi ekki að óttast kreppu. Ef Íslendingar vilji aðra mynt þá bara kaupum við hana inn til landsins, segir Pétur.

Hann segir ógagnsæi valda því að fólk treysti ekki. Íslenskt þjóðfélag þurfi traust, íslenska þjóðin þurfi á trausti að halda. Menn verði að geta treyst stjórnmálamönnum.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins byggi á orðunum: frelsi ábyrgð og umhyggja. Pétur segist vera mjög ánægður með þessi orð. Frelsi einstaklinga eigi að ráða. Það sé ekki hlutverk stjórnmálamanna að segja fólki hvað það eigi að gera. Fólk eigi að ráða því hvort það borði sykur eða fari í ljós.

Hugsa þurfi um umhyggju. Það þurfi að hugsa um þá sem verði undir í lífinu og byggja upp gott velferðarkerfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert