Hagræn áhrif skapandi greina

Unnið er að því að greina og meta hagræn áhrif skapandi greina á Íslandi á heildstæðan hátt og var í dag gengið frá samkomulagi við Colin Mercer, alþjóðlegan sérfræðing í hagrænum áhrifum skapandi greina, um að vinna með fræðimönnum við Háskóla Íslands að verkinu.

Í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu segir að fimm ráðuneyti og Útflutningsráð Íslands  fjármagni verkefnið sem sé unnið að frumkvæði samráðsvettvangs skapandi greina.

Þá segir að á Norðurlöndunum og í Evrópu hafi orðið sú þróun að skapandi greinar teljist nú sjálfstæður atvinnuvegur og sýni rannsóknir að í honum er einna mestur og hraðastur vöxtur.

En þrátt fyrir mikil áhrif og sterka stöðu skapandi greina á Íslandi er lítið vitað um hvaða vægi og áhrif þær hafi í efnahagslegu samhengi.

Ljóst sé að heildstæð greining á þætti skapandi greina í hagkerfinu er mikilvæg fyrir stjórnvöld þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku varðandi atvinnuuppbyggingu. 

Haft er eftir Katrínu Jakobsdóttur ráðherra mennta-og menningarmála: „Sú þekking sem þetta verkefni elur af sér verður ómetanleg þegar kemur að því að taka mikilvægar og stefnumarkandi ákvarðanir um hvernig staðið verður að endurmótun og uppbyggingu íslensks samfélags, m.a. varðandi áherslur í atvinnuuppbyggingu.“  

Colin Mercer er brautryðjandi í rannsóknum og skrifum á kortlagningu hagrænna áhrifa skapandi greina og hefur unnið að þeim í yfir 20 ár.

Honum til liðssinnis verður Tómas Young sem nýlega lauk MS ritgerð sinni í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.  Þá veitir Margrét Sigrún Sigurðardóttir Lektor við Háskóla Íslands faglega ráðgjöf.

Vinna við verkefnið hófst 1. apríl sl. og er áætlað að niðurstöður verði kynntar í byrjun október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert