Íslendingar ákærðir í Mílanó

Frá Mílanó
Frá Mílanó

Fimm Íslendingar voru handteknir í Mílanó á Ítalíu síðastliðna nótt fyrir drykkjulæti og eignaspjöll. Samkvæmt fréttasíðunni Milano Cronaca breyttu fimm ungir menn frá Íslandi einni af götum borgarinnar í sinn eigin skemmtigarð þar sem þeir skiptust á að stökkva upp á bíla og milli bílþaka, og tóku myndir hver af öðrum á meðan.

Þeim hafði tekist að eyðileggja nokkrar bifreiðar þegar ítölsku lögregluna bar að sem handtók þá og færði á lögreglustöð. Þeir voru ákærðir fyrir eignaspjöll.

Samkvæmt fréttinni voru mennirnir á aldrinum 23-25 ára, þrír háskólanemar, einn viðskiptafræðingur og einn jarðfræðingur og voru í fríi á Ítalíu.

Aðspurðir hvað þeim hefði gengið til kváðust Íslendingarnir hafa verið að „skemmta sér“.

Með ítölsku fréttinni fylgir fjöldi mynda sem mennirnir tóku meðan á athæfinu stóð en jafnframt tóku þeir upp myndbönd af verknaðinum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert