Hrefnuveiðar ganga vel

Hrafnreyður KÓ var máluð svört - eins og hrefna. Báturinn …
Hrafnreyður KÓ var máluð svört - eins og hrefna. Báturinn hefur reynst vel við hrefnuveiðarnar. Ljósmynd/Gunnar Bergmann Jónsson

Hrafnreyður KÓ veiddi hrefnutarf í Faxaflóa í dag. Það er 33. hrefnan sem bátar Hrefnuveiðimanna ehf. veiða í sumar. Veiðin hefur gengið mjög vel og bátarnir aldrei farið í fýluferð, að sögn Gunnars Bergmann Jónssonar framkvæmdastjóra.

Tarfurinn í dag veiddist utan við línuna sem afmarkar innri mörk veiðisvæðisins. Hrefnuveiðin nú er orðin töluvert meiri en hún var á sama tíma í fyrra.

„Veiðin hefur gengið mjög vel. Við höfum ekki þurft að fara neina fýluferð, alltaf náð í dýr. Veðurskilyrðin hafa verið mjög fín. Faxaflóinn er krökkfullur af hrefnu,“ sagði Gunnar.

Hrefnuveiðimenn ehf. keyptu bát til veiðanna í vor og nefndu hann Hrafnreyði KÓ. Gunnar sagði að báturinn hafi komið mjög vel út. Auk Hrafnreyðar KÓ hafa Dröfn RE og Halldór Sigurðsson ÍS einnig veitt hrefnur á vegum Hrefnuveiðimanna ehf. 

Hrafnreyður KÓ er aflahæsti báturinn og verður aðallega notaður við veiðarnar út sumarið.

„Það verður veitt alveg grimmt í júlí og eitthvað fram í ágúst,“ sagði Gunnar. Aflinn fer allur á innanlandsmarkað og hefur gengið vel að selja afurðirnar. Búið er að frysta talsvert af kjöti enda geymist það betur en af dýrum sem veidd eru seinni part sumars þegar þau eru orðin feitari. 

Gunnar sagði að hrefnukjöt fáist nú í langflestum verslunum. Einnig fjölgar stöðugt veitingastöðum og hótelum sem bjóða upp á hrefnukjöt. Veitingastaðirnir sem matreiða hrefnu eru orðnir á annað hundrað talsins. 

Sala á hrefnukjötu, bæði á veitingahúsum og í verslunum, hefur haldist í beinu samhengi við ferðamannastrauminn. Gunnar sagði það benda til þess að ferðamenn kaupi  sér hrefnukjöt bæði í verslunum og veitingahúsum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert