Forseti ASÍ vill fremur lækka skatta

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

„Það hefði geigvænlega neikvæð áhrif og myndi koma harkalega niður á atvinnustigi okkar félagsmanna. Ég hef þegar áhyggjur af þeim 10-11 milljörðum sem ríkið áformar að sækja með auknum álögum á næsta ári,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, aðspurður um hvaða áhrif tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins myndu hafa í hagkerfinu, kæmu þær á annað borð til framkvæmda.

Verði tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um breytingar á skattkerfinu að raunveruleika mun það hafa í för með sér 3,5% hlutfallslega skerðingu á ráðstöfunartekjum heimilanna. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs vegna breytinganna myndu aukast um tæplega 30 milljarða króna. 

Tillögur AGS eru gerðar að beiðni fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, sem fór fram á það við sjóðinn að gerð yrði úttekt á íslenska skattkerfinu og mögulegri tekjuaukningu ríkissjóðs.

Leggi fram aðstoð á móti

Gylfi ítrekar að í skýrslu AGS komi skýrt fram að ýmislegt jákvætt megi segja um íslenska skattkerfið, auk þess sem hann leggist ekki á móti breytingum á virðisaukaskattkerfinu, verði á annað borð tryggt að þeir tekjulægstu fái aðstoð sem vegi á móti hækkun á verði nauðsynjavara.

Inntur eftir þolmörkum almennings fyrir aukinni skattbyrði kveðst Gylfi fremur vilja létta byrðina.

„Ég hefði viljað sjá það svigrúm nýtt sem er til að lækka neðra þrepið í tekjuskattinum og þar með álögur á almenning. Með því yrði stuðlað að því að ríkissjóður héldi vöku sinni fyrir því brýna verkefni að draga úr rekstri ríkissjóðs.

Við samþykktum á sínum tíma að 45% af aðlögunarþörf ríkissjóðs yrði tekið í gegnum skatta. Það er mjög mikið. Við vildum verja okkar velferðarkerfi eins og frekast væri unnt. Ef það er gengið lengra í þessu til að hlífa rekstri ríkissjóðs kemur það niður á atvinnuöryggi minna félagsmanna. Í því fólst það viðkvæma jafnvægi sem menn voru að reyna að finna með gerð þessa svokallaða stöðugleikasáttmála. Ég vænti þess að það verði áfram unnið út frá því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert