Össur að tala til Brussel

Sigurður Kári Kristjánsson.
Sigurður Kári Kristjánsson. Valdís Þórðardóttir

Össuri Skarphéðinssyni er samband sitt við ráðamenn í Brussel ofar í huga en góð umgengni við sannleikann er hann lýsir því yfir að stuðningur við ESB-aðild fari vaxandi á Alþingi. Þetta er mat Sigurðar Kára Kristjánssonar, aðstoðarmanns formanns Sjálfstæðisflokksins.

Sigurður Kári vísar þeim ummælum Össurar á bug að Sjálfstæðisflokkurinn sé að einangrast vegna andstöðu sinnar við Evrópusambandsaðild.

„Ég held að það séu einhverjir aðrir að einangrast, til dæmis utanríkisráðherrann. Vegna þess að allar kannanir benda til þess að sífellt fleiri Íslendingar séu sammála þeim sjónarmiðum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett fram í Evrópumálum, frekar en að vera sammála Össuri og Samfylkingunni.“

Dvínandi stuðningur á Alþingi

- Hvað með Alþingi. Er stuðningurinn við aðild að aukast þar?

„Ég hef ekki orðið var við neitt sem bendir til þess að stuðningur á Alþingi sé að aukast, hvorki við aðildarumsóknina sem slíka eða aðild að Evrópusambandinu. Það hefur komið alveg skýrt fram í máli bæði minna samflokksmanna en ekki síður forystumanna annarra stjórnmálaflokka, eins og til dæmis Vinstri grænna.

Ég hefði nú haldið að stuðningurinn hefði dvínað ef eitthvað er. Það hefur mér heyrst, til dæmis á forystumönnum Vinstri grænna.“

Össur að reyna að rugla umræðuna

- Nú er Össur enginn nýgræðingur í stjórnmálum. Hvers vegna telurðu að hann sé að leggja fram þetta stöðumat núna?

„Það er rétt. Össur er ekki fæddur í gær. Ég held að hann sé að reyna að rugla og þvæla umræðuna með þessum hætti.“

- Af hverju ætti hann að vera gera það á þessum tímapunkti?

„Hugsanlega er hann að reyna að tala upp í eyrun á viðsemjendum sínum sem ég hygg að hafi miklar áhyggjur af þverrandi stuðningi Íslendinga við aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

Pólitísk bragð utanríkisráðherra

- Þannig að þú telur að hann ræði með þessum hætti við Morgunblaðið í trausti þess að viðtalið verði þýtt á önnur tungumál og sent til Brussel?

„Já. Það er eina skýringin sem mér dettur í hug vegna þess að engar aðrar skýringar virðast blasa við. Það er ekkert sem bendir til þess að hann hafi rétt fyrir sér utanríkisráðherrann, hvorki um aukinn stuðning meðal almennings né innan Alþingis.

Þetta er pólitískt bragð Össurar til að reyna að rugla umræðuna og sýna sig gagnvart viðsemjendum sínum í Evrópu. Það blasir við að það er ekkert að marka þessar yfirlýsingar vegna þess að þær styðjast hvorki við eitt né neitt,“ segir Sigurður Kári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert