Átta ára fór villur vega

Golfvöllurinn Glanni er nálægt fossinum Glanna í Norðurá.
Golfvöllurinn Glanni er nálægt fossinum Glanna í Norðurá.

Björgunarsveitir og þyrla Landhelgisgæslunnar voru komnar í viðbragðsstöðu til leitar að átta ára dreng í Borgarfirði í dag þegar drengurinn kom fram. Hann var með pabba sínum á Golfvellinum Glanna við Norðurá þegar hann líklega villtist. Drengurinn kom fram heill á húfi eftir  tvo og hálfan tíma.

Drengurinn var með föður sínum sem var að leika golf á Golfvellinum Glanna. Strákurinn þurfti að fara á snyrtingu og sást fara þaðan en hann hefur líklega lagt ranga beygju á leið sína og villst.

Faðir drengsins hafði samband við lögreglu um klukkan 13.00 í dag og óskaði eftir aðstoð.  en þá hafði stráksins verið saknað í um klukkutíma og hann ekki fundist þrátt fyrir leit, að sögn lögreglunnar í Borgarnesi.

Ýmsar hættur eru í nágrenninu enda er golfvöllurinn nálægt Norðurá og landslagið í kring úfin hraun og kjarr. Taldi lögreglan að ekki væri erfitt fyrir litla menn að villast þar um slóðir.

Haft var samband við björgunarsveitir og þyrla Landhelgisgæslunnar sett í viðbragðsstöðu. Áður en skipuleg leit björgunarsveita hófst fékk lögreglan tilkynningu um klukkan 14.30 um dreng á gangi rétt við Hreðavatnsskála þar sem hann var að húkka sér far. Reyndist drengurinn vera kominn þar fram og var leitin afturkölluð.

Foreldrar drengsins sóttu hann síðan en fjölskyldan dvelur nú í sumarbústað í Borgarfirði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert