Mál Storms í nefnd

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur vísað máli Storms til …
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur vísað máli Storms til nefndar um erlenda fjárfestingu. Kristinn Ingvarsson

Viðskiptaráðuneytið hefur ákveðið að vísa máli útgerðarfélagsins Storms til frekari skoðunar hjá nefnd um erlenda fjárfestingu. Útgerðarfélagið Stormur Seafood hefur á undanförnum mánuðum fest kaup á um 1200 tonnum af kvóta og fimm útgerðarfélögum. Ein ríkasta fjölskylda Kína á 43 % hlut í Stormi.

Erlendum aðilum sem fjárfesta í sjávarútvegi ber að tilkynna það til viðskiptaráðuneytisins. Í kjölfarið gengur ráðuneytið úr skugga um hvort vafi leiki á um lögmæti kaupanna. Stjórnarmönnum Storms láðist að gera þetta í fyrstu, en sendu málið loks til ráðuneytisins.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra óskaði eftir því á föstudag að viðskiptaráðuneytið færi yfir eignarhald erlendra fjárfesta í sjávarútvegi þar sem sjávarútvegráðuneytið hefði ekki heimild til þess samkvæmt lögum. Í frétt RÚV um málið kom fram að Jón vildi einnig vita hvert beint eða óbeint eignarhald Storms Seafood sé og hvernig viðskiptaráðuneytið myndi bregðast við ef það reyndist ólöglegt, eins og sjávarútvegsráðherra hefur haldið fram. Þá vildi sjávarútvegsráðherra einnig vita hvort fleiri aðilar eigi í sjávarútvegsfyrirtækjum hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert