Heimdallur gagnrýnir refsiheimild

Stjórn Heimdallar hefur sent fjölmiðlum ályktun vegna frumvarps til nýrra búvörulaga þar sem skorað er á stjórnvöld og þingmenn allra flokka að eyða orku sinni frekar í að afnema styrkja- og haftakerfi í landbúnaði en að festa það enn frekar í sessi með sektar- og refsiheimildum.

„Nýtt frumvarp landbúnaðarráðherra um breytingu á framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sýnir vel í hvaða ógöngum menn lenda þegar aðferðir ríkisforsjár og skipulagshyggju verða ofan á.

Á öllum sviðum hagkerfisins eru vörur framleiddar og seldar þeim sem vilja kaupa. Framleiðsla fer eftir þörfum markaðarins hverju sinni og verðið ræðst af framboði og eftirspurn.Af einhverjum ástæðum telja stjórnvöld hins vegar að allt önnur lögmál gildi um framleiðslu á mjólk í landinu. Þar ákveður hið opinbera hve mikið af mjólk landsmenn þurfi að drekka og svo í kjölfarið ræðst hvað hvert býli má framleiða. Fyrir þetta fá býlin svo sérstakar greiðslur frá skattgreiðendum þessa lands, sem stjórnvöld úthluta til þeirra.

Með hinu nýja frumvarpi hafa stjórnvöld ákveðið að takist einhverjum að mjólka kú og selja án þess að tilheyra þessu ósanngjarna og dýra ríkiskerfi, skuli afurðastöðin sem kaupir vera beitt refsingum. Þannig er með frumvarpinu gert ráð fyrir atbeina lögreglu til þess að viðhalda hinni forneskjulegu framleiðslustýringu. Félagið skorar því á stjórnvöld og þingmenn allra flokka að eyða orku sinni frekar í að afnema styrkja- og haftakerfi í landbúnaði en að festa það enn frekar í sessi með sektar- og refsiheimildum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert