Vilja ekki greiða meira til Framtakssjóðs

Húsasmiðjan er eitt þeirra fyrirtækja sem Framtakssjóðurinn á í dag
Húsasmiðjan er eitt þeirra fyrirtækja sem Framtakssjóðurinn á í dag mbl.is/Ómar

Bandalag háskólamanna leggst alfarið gegn frekari framlögum lífeyrissjóða félagsmanna sinna til Framtakssjóðs Íslands. Sjóðurinn, sem er á vegum lífeyrissjóðanna, keypti nýverið Vestia, eignarhaldsfélag Landsbankans, á 19,5 milljarða króna auk þess sem Landsbankinn eignaðist 30% hlut í Framtakssjóðnum.

Framtakssjóður eignast með kaupunum Húsasmiðjuna, Plastprent, Icelandic og Teymi og dótturfélög þess, Vodafone, EJS, Skýrr og HugAx. Framtakssjóðurinn á einnig þriðjungshlut í Icelandair Group.

„Að gefnu tilefni gerir Bandalag háskólamanna þá kröfu til Framtakssjóðs Íslands, að hann sýni með óyggjandi hætti fram á að fjárfestingar af hans hálfu fylgi tilgangi og skilmálum sjóðsins.

BHM galt við stofnun sjóðsins varhug við þeirri stöðu sem því gæti fylgt að sjóður á vegum lífeyrissjóða launamanna kæmi með virkum hætti að ákvarðanatöku um það hvaða fyrirtæki héldu velli í gegnum núverandi þrengingar. Einnig var það þá skoðun BHM að erfitt gæti reynst að standa við ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða með hlutdeild í slíkum fjárfestingarsjóði.

Verði Framtakssjóður Íslands ekki við óskum BHM um gegnsæi mun bandalagið fara þess á leit að lífeyrissjóðir þeir sem það á aðild að endurskoði aðkomu sína að sjóðnum. Aukinheldur leggst BHM alfarið gegn frekari framlögum lífeyrissjóða félagsmanna sinna til Framtakssjóðs Íslands," að því er segir í tilkynningu frá BHM.

Merki BHM
Merki BHM
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert