Gættu ekki að reglu um meðalhóf

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið segir, að  fallast megi á að í máli konu, sem sætt hafði þvingaðri þvagsýnatöku vegna gruns um ölvunarakstur, hefði ekki verið gætt að grundvallarreglunni um meðalhóf.

Þetta kemur fram á vef umboðsmanns, Alþingis, sem leitaði nýlega svara hjá dómsmálaráðuneytinu um málsmeðferð lögreglu vegna þvingaðrar þvagsýnatöku lögreglunnar á Selfossi í þágu sakamálarannsóknar.

Segir á heimasíðu umboðsmanns, að tilefnið hafi verið  frásagnir í fjölmiðlum af konu, sem kvartaði til ríkissaksóknara vegna þess hvernig starfsmenn sýslumanns stóðu að töku þvagsýnis úr henni.

Í svörum dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að forðast ætti að nota þvaglegg til að taka þvagsýni í þágu rannsóknar sakamáls.  Þá hefði verið réttara að þeir lögreglumenn sem aðstoðuðu við töku þvagsýnisins hefðu allir verið kvenkyns ef unnt hefði verið að koma slíku við.

Ráðuneytið hefur óskað eftir því við ríkislögmann að hann tæki mál umræddrar konu til meðferðar, kæmi fram rökstudd krafa um slíkt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert