Ögmundur sveik loforðið

Alvar gagnrýndi Ögmund Jónasson harðlega á fundinum.
Alvar gagnrýndi Ögmund Jónasson harðlega á fundinum. Ómar Óskarsson

„Það sem ég var að benda á er að ríkisstjórnin ber ábyrgð á því ástandi sem við erum í núna. Hún er búin að hafa tímann fyrir sig undanfarna mánuði til að vinna úr vandamálunum,“ segir Alvar Óskarsson öryrki en hann var einn frummælenda í Ráðhúsinu í kvöld. Hann gagnrýndi Ögmund Jónasson harðlega.

„Ríkisstjórnin er búin að hafa tíma til þess að efna loforð sín bæði fyrir og eftir kosningarnar. Hún hefur hins vegar ekki staðið við eitt eða neitt í einu eða neinu. Skjaldborgin? Það vita allir hvað varð um hana. Það vita allir hvað varð um atvinnuvegina. Þar er allt í kalda koli.

Síðan gekk þetta út á tvær björgunarleiðir, samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og inngöngu í Evrópusambandið. Mér sýnist að ekkert af þessu muni koma þjóðinni að gagni.“ 

Gekk á bak loforða sinna

- Þú gagnrýndir Ögmund Jónasson, þingmann VG, harðlega í kvöld. Hvers vegna?

„Ég sagðist telja að hann hefði svikið kjósendur sína. Í kosningunum lofuðu þessir menn, sem voru ekkert annað en úlfar í sauðagæru, að gera hitt og þetta fyrir okkur. Þeir stóðu ekki við neitt af því. Verstir voru þó þingmenn Vinstri grænna því að þeir lofuðu mest.“

Aðspurður um stjórnmálaskoðanir sínar kveðst Alvar eiga erfitt með að staðsetja sig til hægri eða vinstri. „Hvað er til hægri og hvað er til vinstri? Segðu mér það?“ spyr Alvar.

Hann bætir því svo við að á yngri árum hafi hann tekið þátt í störfum Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna, en svo fært sig yfir í Framsóknarflokkinn. Hann hafi greitt Borgarahreyfingunni atkvæði sitt í síðustu Alþingiskosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert