Menningarbyltingarkennt ástand

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir á vef samtakanna í dag, að því menningarbyltingarkennda ástandi sem ríkt hafi hér á landi, verði að linna. Vera megi að mikil réttlætisþörf búi að baki áformum um að hafa æru af einhverjum ráðherrum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde en spurningin sé hvort þjóðin hafi efni á slíku réttlæti.

Vilhjálmur segir, að þriðja hrunið sé raunhæfur möguleiki en það gæti gert sjálft ríkið gjaldþrota. Alþingi muni innan tíðar taka ákvörðun um hvort sækja eigi nokkra ráðherra ríkisstjórnarinnar, sem sat í aðdraganda bankahrunsins, til saka fyrir vanrækslu og draga þá fyrir landsdóm. Vandséð sé hvernig hægt sé að sakfella þetta fólk fyrir vanrækslu án þess að ríkið sjálft verði þá bótaskylt vegna afleiðinga meintra misgjörða þeirra.

„Á örlagatímum í sögu þjóða hafa fyrri stjórnvöld fengið ýmis málagjöld og án efa oft maklega. Ný ríki hafa verið stofnuð á rústum þeirra sem fallið hafa og tengsl við hið liðna hafa verið rofin. Þar er ekki víst að málaferli og dómar yfir stjórnmálamönnum sem horfnir eru af sviðinu sé farsæl leið fyrir íslensku þjóðina. Nær væri að líta til þeirra þjóða sem farið hafa leið sátta og samstöðu til að gera upp sín erfiðu mál. Íslenska ríkið getur ekki skipt um kennitölu og er ábyrgt fyrir því sem gerðist að svo miklu leyti sem ábyrgðin verður heimfærð á saknæma háttsemi forystumanna þess," segir Vilhjálmur.

Hann segir, að alþingismenn þurfi að sjást fyrir í störfum sínum. Það sé ekki ráðlegt að svala pólitískum hefndarþorsta sínum með því að setja framtíð ríkisins í óvissu.

„Því menningarbyltingarkennda ástandi sem ríkt hefur þarf að linna. Þjóðin þarf að komast upp úr kreppunni og endurheimta atvinnu og lífskjör sín. Það er best gert með því að eyða kröftunum í að horfa til framtíðar og byggja upp en ekki að búa til nýjar klyfjar. Það þarf að hætta að slátra köttum en fara á fullt í að veiða mýs."

Pistill Vilhjálms Egilssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert