Spyr Jóhönnu út í þjóðarskömmina

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, spyr forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, út í orð hennar þann 1. janúar 1997 er hún sagði að fátækt á Íslandi væri þjóðarskömm. „Þá var ástandið afar slæmt en óhætt er að fullyrða að það er mun verra núna. Því spyr formaður, hvað ætlar forsætisráðherra að gera við þessari þjóðarskömm? Spyr sá sem ekki veit," segir á vef Verkalýðsfélags Akraness.

Vilhjálmur er meðal þeirra sem tóku þátt í fundi um fátækt í gærkvöldi. hann segir að þessi ummæli Jóhönnu hafi ekki verið rædd á fundinum en bráðnauðsynlegt sé að rifja þau upp sérstaklega í ljósi fundarefnisins um fátækt á Íslandi.

„Þann 1. janúar 1997 sagði núverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir að fátækt á Íslandi væri þjóðarskömm.

Hún sagði einnig orðrétt: Það er vissulega mjög alvarlegt ef sá maður sem öðrum fremur hefur fjöregg þjóðarinnar í hendi sér, sjálfur forsætisráðherrann neitar að horfast í augu við þá staðreynd að tugir þúsunda heimila í landinu búa við kjör nálægt sultarmörkum. Þetta er smánarblettur á þjóðinni," segir á vef Verkalýðsfélags Akraness.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert