Hrunið ekki rakið til íslenskra stjórnmála

Geir H. Haarde og Björgvin G. Sigurðsson
Geir H. Haarde og Björgvin G. Sigurðsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, segir í svari til þingmannanefndarinnar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og hvort ástæða væri til þess að kalla saman landsdóm, að orsaka bankahrunsins sé ekki að leita í því sem gerðist á vettvangi íslenskra stjórnmála síðustu mánuðina fyrir hrunið heldur sé orsaka hrunsins fyrst og fremst að leita í háttsemi bankanna sjálfra.

Þingmannanefndin óskaði skriflega eftir athugasemdum Geirs við niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna. Í svari sínu, sem dagsett er 7. júní 2010, segist Geir ekki hafa átt því að venjast að sér væri vísvitandi sagt ósatt um mikilvæg mál hvað þá að ábyrgðarmenn stórra fyrirtækja gerðu sig seka um slíkt gagnvart forsætisráðherra. Slíku hafi hann ekki kynnst fyrr en í aðdraganda bankahrunsins og ekki gert sér grein fyrir því fyrr en eftir á.

Geir bendir á að samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð komi refsiábyrgð ráðherra því aðeins til álita að hann hafi látið farast fyrir að framkvæma tiltekna athöfn sem hefði að sönnu getað afstýrt fyrirsjáanlegri hættu. Hann segir að enn greini menn á um hvort og þá með hvaða hætti hefði mátt afstýra hruni bankanna. Í besta falli megi halda því fram að margir samverkandi þættir hefðu þurft að koma til og fæstir þeirra hafi verið á færi stjórnvalda.

Bréf þingmannanefndarinnar til Geirs og svör hans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert