Telur ákæru standast mannréttindareglur

Þingmenn hafa rætt skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í …
Þingmenn hafa rætt skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Atli Gíslason, formaður þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sagði á Alþingi í dag, að hann hefði  sem þingmaður og lögmaður aldrei lagt fram þingsályktunartillögu um að ákæra beri fjóra fyrrverandi ráðherra fyrir landsdómi nema hann teldi að sú tillaga stæðist mannréttindi.

Atli var að svara fyrirspurn Ólafar Nordal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um hvort hann teldi að lög um landsdóm uppfyllti nútíma skilyrði og þær kröfur, sem nú væru gerðar um mannréttindi fyrir dómi. 

Ólöf sagði að það væri almennt skoðun manna, að þær meginreglur, sem þróaðar hefðu verið við meðferð sakamála á undanförnum árum, væru með nokkuð öðrum hætti en sú löggjöf, sem samþykkt var árið 1963 um landsdóm og ætti rætur að rekja til 19. aldar hugsunar í réttarfari.

„Ég held að það skipti máli fyrir okkur að taka þessa umræðu heiðarlega og spyrja okkur að því hvort við höfum virkilega haldið að þessir þættir ættu að vera til skoðunar árið 2010," sagði Ólöf.

Atli sagðist myndu gera grein fyrir þessum álitaefnum þegar þingsályktunartillögur um ráðherraábyrgð koma til umræðu á Alþingi síðar í vikunni.

Ólöf Nordal.
Ólöf Nordal. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert