Breið samstaða náist um rannsókn á einkavæðingunni

Frá umræðu um skýslu Alþingis í gær.
Frá umræðu um skýslu Alþingis í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fagnar jákvæðri umfjöllun og jákvæðum viðbrögðum gagnvart því að einkavæðing bankanna verði rannsökuð. Hún segir miður að ekki hafi náðst meirihluti í þingmannanefndinni um að hefja beri rannsókn.

„Ég fagna því sérstaklega sem fram kom af hálfu formanns Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í umræðum hér á Alþingi hér í gær að vilji sé fyrir því af hálfu þeirra að rannsaka einkavæðinguna. Og treysti því að breið samstaða náist um það hér á Alþingi,“ segir Jóhanna.

„Hinar raunverulegu ástæður hrunsins, sem ítarlega var fjallað um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og nú eru staðfestar með þverpólitískri sátt í þingmannanefndinni, áttu sér stað fyrir árið 2007. Meginástæðan fyrir hruninu var auðvitað fyrst og fremst rakin til framferðis og stjórnarhátta stjórnenda og aðaleigenda bankanna sjálfra. Um þau mál fáum við stöðug ný sannindamerki og við hljótum að treysta því að umfangsmiklar rannsóknir sérstaks saksóknara leiði síðan allan sannleikann í ljós áður langt um líður,“ segir Jóhanna.

Hún segir ennfremur að rótin að óförunum megi rekja til einkavæðingu bankanna fram til ársins 2003 og þess óhefta vaxtar sem stjórnvöld og eftirlitsstofnanir hafi látið viðgangast. „Fjármálaeftirlitið og ekki síst Seðlabanki Íslands fá algjöra falleinkunn í þessu samhengi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert