Dæmd fyrir nafnlaust bréf

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa sent hjónum nafnlaust bréf í febrúar sl. og haft í frammi ærumeiðandi aðdróttanir gagnvart þeim. Konan viðurkenndi brot sitt.

Konan hélt því fram að karlmaðurinn ætti í kynferðissambandi við ónafngreinda samstarfskonu sína sem væri þunguð af hans völdum.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að konan, sem var ákærð í málinu, hafi játað brot sitt við þingfestingu málsins. Hún hafi ekki getað gefið neinar skýringar á bréfinu eða ástæðum þess að hún hafi skrifað það og sent. Í meginmáli bréfsins segir m.a.: 

Ég og C vinnum á sama stað, ég er bara á öðru sviði en hann, en þannig er mál með vexti að ég er ófrísk og veit að hann er pabbinn.  Það kemur enginn annar til greina.

Bréfið var nafnlaust, sem fyrr segir, en böndin bárust fljótlega að konunni, sem játaði brot sitt hjá lögreglu.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að líta megi til þeirra gagna sem konan hafi lagt fram varðandi fæðingarþunglyndi o.fl. Þá hafi hún misst vinnu sína í banka vegna málsins.

Auk skilorðsbundins fangelsis skal hún greiða manninum 200.000 krónur í skaðabætur og 95.000 krónur í málskostnað.  Þá skal hún greiða þóknun verjanda síns, samtals 150.000 krónur. 

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert