Leiðin valin með Hjólavefsjá

Hjólavefsjá var opnuð á Samgönguviku í Reykjavík um helgina. Hjólavefsjáin  gerir borgarbúum kleift að velja sér góða leið áður en þeir leggja af stað á hjóli. Hún gefur upp vegalengdir, leiðarlýsingu og áætlaðan ferðatíma um borgina, að því er segir í tilkynningu. Bíllausi dagurinn er í Reykjavík á morgun.

Jón Gnarr borgarstjóri afhenti OpenStreetMap á Íslandi götugögn Reykjavíkurborgar án endurgjalds til þess að leiðavalið byggi á bestu upplýsingum hverju sinni. Reykjavíkurborg fékk um leið að gjöf lénið hjolavefsja.is frá sama aðila.

Þetta er gert í kjölfar þess að Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi lagði nýlega fram tillögu á fundi umhverfis- og samgönguráðs um að hjólavefsjá yrði gerð fyrir Reykjavík þar sem hægt væri að finna fljótlegar og góðar hjólaleiðir á milli staða. Borgarbúar eru hvattir til að skrá sig sem notendur og taka þátt í þróun vefsjárinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert