Bíða enn eftir gervifótum

Óskar Þór Lárusson skósmiður, Anton Jóhannsson stoðtækjafræðingur og Johann Snyders, …
Óskar Þór Lárusson skósmiður, Anton Jóhannsson stoðtækjafræðingur og Johann Snyders, stoðtækjafræðingur frá Suður-Afríku, nota tímann til þess að skoða sig um í Jerúsalem. Hér eru þeir við Grátmúrinn. mbl.is

Enn verður bið á að íslensku stoðtækjasmiðirnir sem hafa beðið frá því á miðvikudag eftir að fá að fara með gervifætur inn á Gasasvæðið fái fæturna í gegnum toll í Ísrael. Vonir standa til að þeir fáist leystir út í fyrramálið.

„Við heimsóttum tollinn í morgun og áttum þar langt og innihaldsríkt samtal við starfsmenn í móttöku þar,“ segir Óskar Þór Lárusson skósmiður.

„Fyrst var okkur sagt að mál okkar væri ekki aðkallandi og við þyrftum að bíða viku til viðbótar. Okkur var meðal annars sagt að vörurnar okkar gætu verið ógn við varnarhagsmuni Ísraels. Við vorum með lögmann frá ræðismannsskrifstofu Íslands í Tel Aviv og á endanum var okkur leyft að fara í vöruhúsið til að fá fæturna leysta út. Við þyrftum hins vegar að borga sekt vegna þess að við værum smyglarar og toll til viðbótar“ segir Óskar Þór.

Þegar í vöruhúsið var komið var þeim hins vegar sagt að orðið væri of áliðið og fæturnir fengjust ekki afgreiddir fyrr en í fyrramálið.

„Við vitum ekki betur en að við fáum efnið afhent á morgun. Hins vegar á maður aldrei að vona of mikið svo maður verði ekki fyrir vonbrigðum,“ segir Óskar Þór.

Ef það gangi eftir muni þeir framlengja dvöl sína á Gasa til föstudags eða laugardags en upphaflega stóð til að þeir yfirgæfu svæðið á miðvikudag.

Ánægðir með ræðu Össurar

Óskar Þór segir Íslendingana í Gasa ánægða með ræðu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra á  Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York.

Þar gagnrýndi Össur harkalega framferði Ísraela í málinu og skoraði á Ísraelsmenn að láta af hindrunum sínum gegn því að neyðaraðstoð, Íslendinga og annarra, bærist nauðstöddum íbúum Gasa.

„Okkur fannst þetta stórkostlegt og vísuðum til ræðunnar þegar við ræddum við tollinn. Þar fengum við hins vegar þau svör að tollurinn og diplomasían væru alveg aðskildir hlutir,“ segir Óskar Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert