Vilja nýtt fjármálakerfi

Mótmælendur við girðinguna sem reist var við þinghúsið.
Mótmælendur við girðinguna sem reist var við þinghúsið. Morgunblaðið/Ómar

Hópur manna hefur að undanförnu rætt leiðir til að koma á nýju hagkerfi sem lúti öðrum lögmálum en það sem nú hafi riðað til falls. Jörmundur Ingi, fv. allsherjargoði, tekur þátt í starfi hópsins en hann sagði við mbl.is fyrir stundu að söguleg stund væri runnin upp í íslensku þjóðlífi.

„Það er sögulegur atburður þegar þúsundir manna safnast saman á Austurvelli til að krefjast breytinga, þótt ég sé nú kannski ekki sáttur við hvernig þetta hefur þróast síðasta klukkutímann. Ég var á fundi til að undirbúa blaðamannafund um endurbætur á fjármálakerfinu.

Ég kom klukkan átta og sá þá mikið af fólki en það voru náttúrulega allt öðruvísi mótmæli en eru núna,“ sagði Jörmundur Ingi þar sem hann ræddi við blaðamann við styttuna af Jóni Sigurðssyni en eldglæringum rigndi þá yfir nærstadda frá brennandi garðbekkjum skammt frá.

„Það er svolítið leiðinlegt að þetta skuli þróast út í svona hálfgerð skrílslæti. En stjórnvöld gátu svo sem búist við því þegar ekki er tekið mark á fólki. Þegar ekki er hlustað á friðsöm mótmæli er hætta á að þau þróast út í svona læti.“ 

Nýtt kerfi komi í veg fyrir tilbúnar kreppur 

Jörmundur Ingi segir hópinn vilja umbylta fjármálakerfinu.

„Það er fundur á miðvikudaginn, blaðamannafundur, sem fjallar um endurskipulagningu á fjármálakerfinu. Við ætlum að leggja til nýtt fjármálakerfi fyrir Ísland. Þar eru saman komnir áhugamenn um hvernig megi bæta bankakerfið, fjármálakerfið, til að koma í veg fyrir svona tilbúnar kreppur.

Það þarf að hanna kerfið þannig að svona geti ekki komið fyrir aftur,“ segir Jörmundur Ingi en hann kveðst aðspurður ekki hafa á takteininum hvenær hópurinn var stofnaður. Það hafi líklega verið fyrir fjórum til átta mánuðum.

Tími ósjálfbærs kerfis á enda

Ólafur Ragnar Ólafsson verkfræðinemi segir hópinn myndaðan af fólki úr ýmsum áttum. Jón Þór Ólafsson stjórnmálafræðingur hafi kynnt nýjar leiðir í efnahagsmálum á fundi í Húsinu í Borgartúni í sumarbyrjun og umræður skapast af því.

Ólafur Ragnar bætir því við að hluti hópsins hafi orðið til í tengslum við komu kvikmyndagerðarmannsins Bill Still til landsins. Guðmundur Ásgeirsson kerfisfræðingur, Sigurður Eggertsson tölvunarfræðingur, Pétur Einarsson ljósmyndari, Þórarinn Haki aðgerðasinni og Jörmundur Ingi Reykjavíkurgoði komi allir að starfi hópsins.

„Allir sem þekkja til náttúrulegra kerfa vita að kerfi sem vaxa með vísisvexti eru ekki sjálfbær og riða á endanum til falls. Hugmyndir okkar um breytingar munu leiða til stöðugs kerfis sem tryggir kaupmátt launa. Við teljum að kerfið muni koma í veg bólumyndun í hagkerfinu.“   

Efnt verður til blaðamannafundarins í Norræna Húsinu klukkan þrjú á miðvikudag.

Ólafur Ragnar og Jörmundur Ingi á Austurvelli um ellefuleytið í …
Ólafur Ragnar og Jörmundur Ingi á Austurvelli um ellefuleytið í gærkvöldi. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert