Borgarafundir á fjórum stöðum

Búist er við fjölmenni á borgarafundi um niðurskurð heilbrigðisþjónustu. Myndin …
Búist er við fjölmenni á borgarafundi um niðurskurð heilbrigðisþjónustu. Myndin var tekin á borgarafundi um atvinnumál á Húsavík. Hafþór Hreiðarsson

Boðað hefur verið til borgarafunda til að mótmæla niðurskurði á sjúkrahúsum á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. Fundað verður á Húsavík, í Reykjanesbæ og Ísafirði í dag og á morgun í Vestmannaeyjum.

Sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum boða til borgarafundar um niðurskurð á fjárveitingum til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Fundurinn verður á Fosshóteli Húsavík klukkan 17 í dag. 

Heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og þingmönnum kjördæmisins hefur verið boðið til fundarins.

Keflavík kl. 20

Þögul mótmæli verða í skrúðgarðinum, við sjúkrahúsið í Reykjanesbæ í dag. 

Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Félag eldri borgara á Suðurnesjum og Starfsmannafélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja boða til fundarins sem verður í kvöld, klukkan 20.

Efnt er til fundarins til að mótmæla tillögum um niðurskurð á framlögum ríkisins til rekstrar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á næsta ári. „Þetta skapar óöryggi og óvissu fyrir sjúklinga og fæðandi konur,“ segir meðal annars í fundarboði.

Ísafjörður kl. 21

Borgarafundur vegna tillagna ríkisstjórnarinnar um 40% niðurskurð á sjúkrahúsþjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða verður einnig í kvöld. Fundurinn verður í íþróttahúsinu á Torfnesi og hefst klukkan 21, að loknum fyrsta leik vetrarins hjá KFÍ.

Í tillögu að ályktun sem lögð verður fyrir fundinn er stórfelldum niðurskurði á heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum hafnað alfarið og þess krafist að fallið verði frá boðuðum niðurskurði á sjúkrahússviði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Tryggt verði að Vestfirðingar búi við sambærilegt öryggi í heilbrigðismálum og aðrir landsmenn.

Sveitarfélögin á norðanverðum Vestfjörðum boða til fundarins.

Vestmannaeyjar á morgun

Áhugafólk um velferð Vestmannaeyja efnir til samstöðufundar á Stakkó á morgun, föstudag, klukkan 16.30. Í lok fundar er ætlunin að mynda hring um sjúkrahúsið.

Mótmælt er aðgerðarleysi ríkisstjórnar og tillögum um niðurskurð ríkisins á fjárframlögum til rekstrar Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja. Þær feli í sér að heilbrigðisþjónusta í núverandi mynd verði lögð niður með skertum lífskjörum og brostnum forsendum búsetu.

Þá er mótmælt þeirri aðför sem stýrt er gegn Vestmannaeyjum með árásum á atvinnulífið og endalausum niðurskurði á þjónustu, segir í tilkynningu um fundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert