Frjálslyndi flokkurinn snýr aftur

Frá mótmælunum á Austurvelli á mánudag. Sigurjón segir marga kjósendur …
Frá mótmælunum á Austurvelli á mánudag. Sigurjón segir marga kjósendur ríkisstjórnarflokkanna ósátta með svikin kosningaloforð. Ómar Óskarsson

„Við erum alveg á því að það þarf að auka gjaldeyristekjur og þá er eitt að gera, að auka veiðiheimildir. Síðan þarf að koma til móts við heimilin,“ segir Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins, sem kveðst sannfærður um gott gengi ef efnt yrði til kosninga. Stjórnin hafi svikið loforð.

„Okkur líst ágætlega á þær tillögur sem hafa komið fram. Þá á ég til dæmis við tillögurnar sem Lilja Mósesdóttir hefur komið fram með í tveimur frumvörpum, annars vegar varðandi gjaldþrotaleiðina og hins vegar lyklafrumvarpið. Sömuleiðis þarf að koma á almennum skuldaleiðréttingum eins og Framsóknarflokkurinn benti réttilega á.“

Þak á verðtrygginguna 

Sigurjón segir flokkinn vilja taka á verðtryggingunni. 

„Auðvitað urðu ákveðnir forsendubrestir varðandi verðtrygginguna sem ég er alveg viss um að við þurfum að setja ákveðið þak á og setja þá á biðreikninga og svo mögulega taka þá til afskrifta síðar. Það er algjörlega fráleitt að halda áfram með þetta fyrirkomulag eins og ríkisstjórnin er að gera.“

- Nú er uppi krafa um kosningar. Samkvæmt nýrri könnun vill helmingur kjósenda kosningar innan sex mánaða. Það er jafnframt uppi krafa um ný framboð. Sérðu sóknarfæri fyrir ykkur í Frjálslynda flokknum?

„Já, við teljum það. Því miður. Við höfum kannski haft allt of rétt fyrir okkur í Frjálslynda flokknum.“

Lausnirnar fengu ekki brautargengi

- Að hvaða leyti þá?

„Lausnirnar sem við lögðum til um hvernig mætti komast út úr vandanum hafa ekki fengið brautargengi. Við sögum það fyrir kosningarnar 2009 að eina leiðin væri að auka tekjurnar og taka á þessum forsendubresti sem varð varðandi verðtrygginguna. Og svo eru það lánamál fólksins í landinu. 

Síðan þarf að taka virkilega til og segja fólki sannleikann. Það er það sem vantar upp á. Það er í rauninni upplýsingaskortur, leyndarhyggja, bæði hvað varðar skuldir samfélagsins, til dæmis skuldir sjávarútvegsins, ríkisins og hins opinbera og svo varðandi afskriftir sem misbjóða almenningi. Þessar tölur eru ekki upp á borðinu. Þær eru alltaf hafðar í einhverri þoku.“

Hafa þjappað raðirnar

- Það hefur ekki farið mikið fyrir ykkur. Hvað hafið þið verið að gera?

„Ég er nú ekki sammála því. Ég hef verið á fullu í sveitarstjórninni í Skagafirði. Þar náðum við að fá aðra flokka inn á að endurskoða ráðgjöf Hafró. Ég hef verið í sambandi við aðra sveitarstjórnarmenn hringinn í kringum landið til að fá þá til að samþykkja tillögu sama efnis um að auka veiðar. Svo höfum við verið í innra starfi til að þjappa okkur saman.“

Baráttan um sviðsljósið 

Sigurjón segir flokksmenn hafa fundað reglulega upp á síðkastið.

„Við höfum verið að starfa og haldið fundi og sent frá okkur ályktanir. Við höfum gert það reglulega. Það er barátta um að komast í sviðsljósið. Það hefur verið erfitt að ná eyrum fjölmiðla vegna ýmissa framfaramála sem við höfum viljað ná fram.

Maður er að reyna að berjast áfram með þessi málefni sem flokkurinn hefur sett á oddinn og það er kannski aðalatriðið. Hvort sem fylgi flokksins mælist mikið eða lítið lít ég svo á að við þurfum að ná fram grundvallarbreytingum í þessu samfélagi, bæði hvað varðar undirstöðuatvinnugreinina og svo er það lífsins nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að taka á þessum vanda heimilanna.“

Sannfærður um góðan árangur

Ykkur gekk ekki vel í síðustu þingkosningum. Heldurðu að ykkur myndi ganga betur núna?

„Já. Ég er sannfærður um það Ég hef fulla trú á því og skynja það, sérstaklega í mínu kjördæmi, að fólk sem var talin trú um það af stjórnarflokkunum núverandi að þeir ætluðu að taka upp baráttumál Frjálslynda flokksins, sérstaklega Vinstri grænir og Samfylkingin, hefur orðið fyrir sárum vonbrigðum með efndirnar.

Fólki finnst sem flokkarnir hafi gengið á bak orða sinna og það situr nú eftir með sárt ennið. Þeir eru falskari en 65 krónu seðill. Það er bara þannig,“ segir Sigurjón Þórðarson og á við ríkisstjórnarflokkanna.

Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins.
Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert