Joly styður áskorun Bjarkar

Frá blaðamannafundi Evu Joly og Bjarkar Guðmundsdóttur í dag.
Frá blaðamannafundi Evu Joly og Bjarkar Guðmundsdóttur í dag. mbl.is/Golli

Eva Joly og Björk Guðmundsdóttir stóðu fyrir blaðamannafundi í Norræna húsinu í dag. Joly hefur kynnt sér Magma-málið og tekur undir áskorun Bjarkar og 20.000 annarra Íslendinga á vefnum orkuaudlindir.is þar sem skorað er á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS-orku.

Þar er skorað á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu sem allra fyrst um orkuauðlindir þjóðarinnar.

Ásamt Björk og Evu Joly sátu þau Jón Þórisson og Oddný Eir Ævarsdóttir fyrir svörum. 

Í upphafi fundar sagðist Björk fagna aðkomu Evu Joly að þessu málefni. Ekkert þeirra sem að þessu kæmi væri löglært, en Eva Joly væri lögmaður ogt því væri aðkoma hennar dýrmæt.

Farið var yfir efni skýrslu nefndar um nýtingu orkulinda sem kom út í september síðastliðnum.  Umrædd nefnd lagði áherslu á að mörg vafaatriði væru í þessum efnum.

Í máli Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur, eins aðstandenda fundarins, kom fram að markvisst hefði unnið að því að breyta lögum um orkufyrirtæki á árunum 2003 - 2007. Þessar lagabreytingar hefðu náð hámarki þegar Geysi Green var gert kleift að kaupa í HS-orku. Hún sagði umfang orkuiðnaðarins á Íslandi vera orðið slíkt að hann getur vaxið Íslandi yfir höfuð, rétt eins og gerðist með bankakerfið.

Jón Þórisson, einn þeirra sem að fundinum stóðu, sagði hópinn ítrekað hafa beðið um upplýsingar varðandi sölu orkuauðlinda, en ekki fengið svör.

Eva Joly sagðist vera þarna fyrst og fremst sem áhugamanneskja um orkumál og sagði orkugeirann svífast einskis. Hun sagði evrópskan orkuiðnaðn vera í endurnýjun og sífellt væri horft meira til endurnýjanlegrar orku. Ísland væri í einstakri stöðu og það ætti ekki að vera nein pressa á að auka orkuframleiðslu hérna.

Hún spurði hverjir komi að áliðnaðinum á Íslandi. Hún sagði hann mannaflsfrekan og vissulega skapa störf. En hann væri umhverfinu skaðlegur, yrðu fleiri álver byggð á landinu með tilheyrandi afleiðingum. þá myndi það hafa mikinn kostnað í för með sér. Hún sagði stjórn og eignarhald álfyrirtækjanna oft vera á huldu.

Joly sagði að tími væri nú kominn til að snúa við þeirri þróun um að einkaaðilar eignist orkuauðlindirnar. Hún varpaði fram þeirri spurningu hvers vegna Íslendingar ættu að setja orkulindirnar í einkaeigu, þegar sama framkvæmd með bankana mistókst svo hrapallega. Orkulindirnar væru allt of mikilvægar til að láta þær í hendur misviturra einkaaðila . Þeir einu sem högnuðust á því væru eigendur og stjórnendur orkufyrirtækjanna, sem væru vel faldir í skattaskjólum víða um heim.

Björk sagðist ætla að einbeita sér að umhverfismálum á næstunni og sagði þau vissulega tengjast efnahagshruninu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka