Hörð umræða um uppsagnir hjá OR

Fólk mótmælti á pöllunum í Ráðhúsinu á meðan borgarstjórnarfundur fór …
Fólk mótmælti á pöllunum í Ráðhúsinu á meðan borgarstjórnarfundur fór fram í dag. mbl.is/Ómar

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, sakaði Kjartan Magnússon borgarfulltrúa að reyna að slá pólitískar keilur með því að rjúfa trúnað um þá vinnu sem á sér stað innan stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um hagræðingu innan fyrirtækisins. Kjartan sakaði Dag um ósannindi.

Kjartan hóf umræðu um hagræðingu innan  Orkuveitunnar, en Kjartan situr í stjórn fyrirtækisins. Hann sagði að rætt hefði verið um leiðir til hagræðingar á fjórum fundum í stjórninni. Hann sagðist hafa lagt sig fram um að benda á leiðir til hagræðingar án þess að kæmi til uppsagna. Hann sagðist þar einkum hafa bent á þá leið að lækka starfshlutfall starfsmanna t.d. um 10%. Með því væri verið að dreifa vinnunni. Fyrirtækið næði fram sparnaði án þess að segja upp fólki.

Kjartan sagist hafa orðið fyrir vonbrigðum á síðasta stjórnarfundi þegar í ljós hefði komið að forstjóri fyrirtækisins hefði ekki verið búinn að leggja út í vinnu við að útfæra þessa hugmynd. Hugmyndir starfsmanna um hagræðingu hefðu heldur ekki verið lagðar fyrir stjórn fyrirtækisins. Þess vegna hefði hann óskað eftir fundi með trúnaðarmönnum starfsmanna. Forstjóri fyrirtækisins hefði hins vegar mætt óboðinn á þann fund og neitað að yfirgefa hann þrátt fyrir að athugasemd hefði verið gerð við veru hans á fundinum.

Kjartan sagði að það væri auðveldara fyrir stjórnendur OR að segja upp fólki frekar en að fara þá leið að lækka starfshlutfall. Sú leið hefði hins vegar víða gefist vel þar sem hún hefði verið farin á síðustu tveimur árum þegar fyrirtæki hefðu þurft að hagræða.

Dagur B. Eggertsson sagði að sér hefði liðið illa undir ræðu Kjartans. Hann væri að reyna að slá sér pólitískar keilur þegar stjórnendur og starfsmenn Orkuveitunnar væru að reyna að vinna úr erfiðri stöðu. Hann sagði þessa ræðu Kjartans því furðulegri í ljósi þess að í ágúst hefði Kjartan gagnrýnt gjaldskrárhækkanir OR og sagt að það ætti að ganga lengra í hagræðingu, en hefði þýtt víðtækari uppsagnir. „Sveiattan“ sagði Dagur þegar hann lauk ræðu sinni.

Kjartan sagði að Dagur færi með rangt mál. Hann hefði sagt eftir fund OR í ágúst að gjaldskrárhækkanir væru óhjákvæmilegar, en að það ætti að hækka gjaldskrá á lengri tíma.

Dagur kom aftur upp og sagði rétt að Kjartan hefði í fyrsta útvarpsviðtali sagt að það þyrfti að hækka gjaldskrá. Eftir að hækkanirnar hefðu verið gagnrýndar í leiðara Morgunblaðsins hefði hann hins vegar skipt um skoðun  og sagt að taka ætti á vandanum með meiri hagræðingu. Kjartan mótmælti þessu aftur og vitnaði í bókun sína í stjórn OR þar sem kemur fram að hann teldi að hækka þyrfti gjaldskrá.

Jón Gnarr borgarstjóri sagði fráleitt að tala um að uppsagnir væru auðveld leið eins og Kjartan hefði gert.

Kjartan Magnússon í ræðustóli á fundi borgarstjórnar í dag.
Kjartan Magnússon í ræðustóli á fundi borgarstjórnar í dag. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert