Bót vill bætt samfélag

Félagar í samtökunum ásamt forseta Íslands á Bessastöðum í gær.
Félagar í samtökunum ásamt forseta Íslands á Bessastöðum í gær.

Samtökin Bót funduðu með forseta Íslands á Bessastöðum í gær, þar sem þess var farið á leit við forsetann að hann legði frumvarp fyrir Alþingi sem kvæði á um útreikning á framfærslu og viðmiðum til nauðþurfta.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum. Þar segir að íslenska ríkið eigi að tryggja að enginn íslenskur borgari verði undir þeim viðmiðum framfærslu sem reiknuð eru til nauðþurfta.

Samtökin benda á að líf fólk sé  í höndum hjálparstofnanna, ríkið og sveitafélög hafi ekki sinnt sínum lögbundna hlutverki að tryggja nauðþurftir almennings.

Guðmundur Guðlaugsson, félagi í samtökunum, segir að allt sé fullreynt,  eina úrræðið sem eftir er, sé að forseti Íslands leggi fram lagafrumvarp sem kveði á um útreikning á framfærslu og viðmiðum til nauðþurfta. 

Í tilkynningu frá samtökunum segir: „Landið er stjórnlaust, þingið virkar illa, vegna úlfúðar og karps um einskisverða hluti meðan þjóðinni blæðir.  Þing og stjórn lúta þar engum venjulegum lögmálum.“

„Stéttarfélögin hafa ekki verið að standa sig vel í kjarasamningum,“segir Guðmundur og bendir á að lægstu laun séu lægri en bætur.

Í samtökunum Bót er fyrst og fremst fólk sem hefur framfæri sitt af örorku-, félags- atvinnuleysisbótum og ellilífeyri. Samtökin hafa staðið fyrir borgarafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur og hyggja á samskonar fundí Salnum í Kópavogi næstkomandi þriðjudag 26. október.

„Það eru svo margir að fjalla um fátækt, en enginn þeirra er fátækur. En við höfum reynsluna,“ segir Guðmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert