Lögðu áherslu á að Ísland styddi hernað

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í morgunþætti Rásar 2 í dag, að samtöl hefðu farið fram á milli bandarískra og íslenskra embættismanna í aðdraganda þeirrar ákvörðunar vorið 2003, að styðja hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og fleiri ríkja í Írak.

Sagði Össur, að upplýsingum um þessa ákvörðun hefði verið aflað í ráðuneytinu fyrir  Alþingi vegna þingsályktunartillögu, sem þar hefði komið fram um rannsókn á málinu. Sú tillaga var hins vegar afgreidd en Össur sagði, að von væri á að hún yrði lögð fram á ný. Upplýsingarnar kæmu í ljós þegar þingið fengi þær afhentar.

Það kæmi hins vegar á óvart, að meira væri til af upplýsingum en áður hefði verið talið og þær vörpuðu ljósi á það hvernig ákvörðunin hefði verið tekin og hvaða hagsmunir lágu til grundvallar. Einnig væri ljóst að ákvörðunin hefði ekki verið tekin með lýðræðislegum hætti.

Þá sagði Össur, að samtöl hefðu farið fram á milli bandarískra og íslenskra embættismanna í aðdraganda þessarar ákvörðunar.  „Það var auðvitað ljóst að Bandaríkin sóttu mjög fast að fá Ísland á þennan lista," sagði Össur.

Hann sagði, að þær upplýsingar sem vefurinn WikiLeaks birti á föstudag um hernaðinn í Írak staðfesti það sem þáverandi stjórnarandstæðingar sögðu, að rangt hefði verið af íslenskum stjórnvöldum að styðja þetta stríð. Þetta væri svartasti bletturinn á íslenskri utanríkisstefnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert