Drög að nýjum upplýsingalögum

Merki forsætisráðuneytisins
Merki forsætisráðuneytisins

Starfshópur, sem forsætisráðherra skipaði til að endurskoða gildandi upplýsingalög, hefur skilað af sér drögum að frumvarpi. Formaður starfshópsins er Trausti Fannar Valsson lektor, en í honum eiga auk þess sæti Margrét Vala Kristjánsdóttir lektor og Þórhallur Vilhjálmsson yfirlögfræðingur Alþingis. 

Í drögunum er bent á að núgildandi lög hafi falið í sér umtalsverða réttarbót. Hins vegar sé rétt að hafa í huga að frá gildistöku upplýsingalaga hefur íslensk stjórnsýsla þróast mikið.

Miklar breytingar hafa orðið á meðferð og vinnslu mála innan stjórnsýslunnar og því hvernig upplýsingar eru varðveittar. Þessar breytingar gera það að verkum að auðveldara er en áður að gera upplýsingar um málefni hins opinbera aðgengilegar. Jafnframt hafa kröfur almennings til aðgangs að upplýsingum um opinber málefni aukist.Í drögunum segir að þessar aðstæður kalli á endurskoðun upplýsingalaga með það að markmiði að auka upplýsingarétt almennings.

Í skipunarbréfi starfshópsins segir að honum sé meðal annars ætlað að skoða hvernig megi í ljósi reynslunnar af upplýsingalögum og framkvæmd úrskurðarnefndar um upplýsingamál rýmka aðgengi almennings að upplýsingum í fórum stjórnvalda. Jafnframt var starfshópnum falið að skoða hvort möguleiki væri á því að víkka út gildissvið upplýsingalaga, t.d. þannig að þau nái til einkaaðila eins og hlutafélaga og sameignarfélaga sem alfarið eru í eigu hins opinbera.


Í drögunum segir að í  frumvarpinu hafi megináherslan verið lögð á að ná ásættanlegu jafnvægi á milli þriggja mikilvægra þátta.

„Í fyrsta lagi að með lögunum séu settar almennar reglur sem hafi það að markmiði að tryggja opna og gegnsæja stjórnsýslu. Slíkt er til þess fallið að auka aðhald með starfsemi stjórnvalda, auka réttaröryggi borgaranna og bæta möguleika þeirra til þátttöku í lýðræðissamfélagi. Það er megintilgangur frumvarpsins að tryggja framgang þessa markmiðs.

Í öðru lagi hefur verið litið til þess að stjórnvöld fást í ýmsum störfum sínum við upplýsingar sem teljast viðkvæmar, bæði vegna hagsmuna almennings og hins opinbera og vegna einkahagsmuna. Með hliðsjón af þessu hefur við samningu frumvarpsins  verið leitast við að greina og lýsa þeim tilvikum þar sem slíkir hagsmunir teljast nægilega ríkir til þess að þeir réttlæti frávik frá  meginreglu laganna um rétt almennings til aðgangs að gögnum.

Í þriðja lagi hefur við  samningu frumvarpsins verið horft til þess að reglur um rétt almennings til aðgangs að gögnum séu settar fram með þeim hætti að framkvæmd þeirra geti orðið skilvirk, og jafnframt að hún verði ekki úr hófi kostnaðarsöm.“

Drögin að frumvarpinu á vef forsætisráðuneytisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert