Íslandspósti synjað um verðskrárhækkun

Póst- og fjarskiptastofnun hefur hafnað beiðni Íslandspóst um hækkun á gjaldskrá bréfa.

Beiðni Íslandspósts var rökstudd í fjórum liðum: Frestun verðskrárbreytinga frá 1. janúar 2010 til 1. mars 2010, auknir afslættir skv. bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins, hækkun tryggingagjalds á árinu 2010 og frestun innleiðingar ákveðins dreifkerfis með tilheyrandi frestun á lækkun kostnaðar.

Vildu velta kostnaði yfir á almenning

Í niðurstöðu PFS vísar stofnunin m.a. til þess að þó svo að gildistaka síðustu verðskrárbreytinga hefði orðið síðar en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir ætti það ekki að leiða til þess að félaginu yrði bættur sá tekjumissir, enda hafi málsmeðferð stofnunarinnar á þeirri hækkunarbeiðni verið innan eðlilegra tímamarka.

Þá fæli beiðni um hækkun gjaldskrár í sér að verið væri að bæta Íslandspósti tiltekin afsláttarkjör, sem fyrirtækið taldi sig skylt að veita í kjölfar bráðabirgðaákvörðunar Samkeppniseftirlitsins, án þess að sýnt hefði verið fram á þau hefðu skilað sér í auknu kostnaðarhagræði fyrir Íslandspóst.  Með því móti væri í raun verið að velta kostnaðinum með beinum hætti yfir á notendur þjónustunnar, þ.á.m. almenning.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert