Réttmætt að áhersla sé á þjóðtrú

Ekki er fjallað um stöðu kirkjunnar sem þjóðkirkju í álitinu …
Ekki er fjallað um stöðu kirkjunnar sem þjóðkirkju í álitinu og hvað í þeirri stöðu felst. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt á það áherslu að upplýsingum um trúmál sé miðlað með hlutlægum og gagnrýnum hætti og er óheimilt að stefna að innrætingu skoðana. Réttmætt sé að leggja áherslu á kennslu í þjóðtrú landsins, jafnvel þannig að meiri fræðsla fari fram í þeim trúarbrögðum en öðrum og á það jafnt við um kynningu á sögu, kenningum og helgihaldi. Hefur ríkið svigrúm til að meta hæfilega áherslu á menntun í þeim trúarbrögðum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í áliti sem birt er á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis. 

Segir í álitinu að því verði að telja vettvangsheimsóknir, t.d. í kirkju, rúmast innan þess svigrúms, en gæta skal að því að ekki sé hlutfallslegt ósamræmi í því hversu oft á skólaári eða skólastigi farið er í kirkju annars vegar og á aðra helgistaði eða heimsóknir hins vegar. 

Hvað varðar heimsóknir presta á skólatíma, þá skal gerð krafa um að slíkar heimsóknir falli að skipulagi náms í aðalnámskrá og skólanámskrá, séu kynntar foreldrum fyrirfram og að gætt sé að hlutfallslegu jafnvægi heimsókna presta eða annarra fulltrúa kirkjunnar annars vegar og sambærilegra heimsókna annarra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga hins vegar.

Þá skal þess gætt að kennsla sé hlutlæg og gagnrýnin, í anda fjölhyggju, og trúar- og lífsskoðanir foreldra sem aðhyllast aðra trú eða skoðanir séu virtar.

Álitið var unnið af Dóru Guðmundsdóttur, Cand.Jur, LL.M, að beiðni ráðuneytisins.  Álitið er ekki sett fram sem skoðun ráðuneytisins á þeim álitaefnum sem þar eru til umfjöllunar, heldur sem fræðileg og hlutlæg úttekt framangreinds fræðimanns.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert