Á erfiðum stað í viðreisninni

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

„Hinir flokkarnir eru ekki að bæta við sig nema Hreyfingin. Er þetta ekki vitnisburður um það að við erum á mjög erfiðum stað í þessu öllu saman?“ spyr Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í tilefni af nýrri könnun um fylgi stjórnarinnar.

Sigríður Ingibjörg leggur áherslu á að vandinn sé margþættur og kalli á tímafrekar aðgerðir.

„Dómstólarnir eru að störfum. Rannsóknarskýrsla Alþingis var með mikinn áfellisdóm yfir stjórnsýslunni og það er verið að gera breytingar. Stjórnsýslunni er ekki breytt á einni nóttu. Við þurfum þetta uppgjör og breytingar til að hverfa frá því samfélagi sem gerði þetta kleift um leið og við þurfum líka að komast út úr þeim fasa og halda áfram.“

Kreppan á Íslandi ekki einsdæmi 

„Svo megum við heldur ekki gleyma því að í löndunum í kringum okkur er víða mjög erfitt ástand. Það er víða sem er erfitt efnahagsástand og gríðarlegur niðurskurður. Þetta reynir á og það er eðlilegt að fólk sé ekki tilbúið til að vera skilningsríkt og þolinmótt. Þetta eru aðstæður sem reyna mikið á samfélagið okkar og það er mikið umrót og umbrot og mikil endurskoðun á öllum sviðum.

Upplýsingarnar í könnuninni koma mér ekki á óvart. Þær endurspegla það ástand sem er í samfélaginu. Við verðum að fylgja áætlunum. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Við erum með ákveðið verkefni og það vita allir hvað þarf að gera. Og það þýðir ekkert að ætla að veigra sér við það því það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn. Það verður ekkert auðveldara að setja með fjárlagahalla ár eftir ár eftir ár.“

– Þannig að þú ert að segja að það þurfi að taka á þessu núna í eitt skipti fyrir öll?

„Já. Og þó klárum við það ekki alveg núna. Það koma fjárlög á eftir þessum. En þetta eru erfiðustu fjárlögin. Það var lögð fram áætlun í ríkisfjárlögum sumarið 2009 og á þeim tíma var alveg ljóst að þetta yrði erfiðasti veturinn."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert