Líflína til Flateyrar

Frá Flateyri
Frá Flateyri mbl.is/Helgi Einarssona

„Þetta getur sannarlega orðið mikilvægur hlekkur í stærri keðju þannig að hægt sé að tengja saman hluti svo að rekstur, útgerð og vinnsla komi sterkara út. Þetta verður vonandi liður í því að uppsagnirnar verði dregnar til baka,“ segir Teitur Björn Einarsson, stjórnarformaður Eyrarodda á Flateyri, um áhrif þeirrar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra frá því í gær að auka aflamark til stuðnings minni byggðarlögum.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, tekur undir að ákvörðunin hafi mikil áhrif á atvinnumöguleika á Flateyri, en 47 manns var nýlega sagt upp hjá Eyrarodda.

„Hitt hefði verið dauðadómur. Þetta skiptir öllu máli og gefur mönnum svigrúm til þess að komast yfir erfiðasta hjallann og vonandi verður hægt að bæta við þetta.“

Ákvörðun Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra felur í sér að hámark úthlutunar til minni byggðarlaga verður hækkað úr 150 tonnum í 300 tonn innan heimildar 10. greinar laga um stjórn fiskveiða.

Jón setur skilyrði fyrir viðbótinni.

„Það þótti sjálfsagt að nýta það svigrúm sem er innan heimilda varðandi byggðarkvótann. En ég legg mikla áherslu á að löndun og vinnsla sé á viðkomandi stað. Það er grundvallarskilyrði fyrir þessari viðbót.“

 Þurfa að uppfylla skilyrði

Hinrik Greipsson, sérfræðingur hjá sjávarútvegsráðuneytinu, segir að auk Flateyrar kunni aukningin m.a. að ná til Vopnafjarðar, Stöðvarfjarðar, Ólafsvíkur, Árskógssands og Grundarfjarðar, að uppfylltum skilyrðum.

Uppsagnirnar voru reiðarslag fyrir starfsfólk Eyrarodda eins og rakið er í Morgunblaðinu í dag. 

 Leiðrétting: Í Morgunblaðinu í dag, laugardag, sagði að aukningin hefði numið 12.000 tonnum. Það er ekki rétt. Í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sagði að aukningin rúmist innan 10. gr. laga um fiskveiðar þar sem segir að ráðherra geti úthlutað allt að 12.000 tonnum af óslægðum botnfiski vegna stuðnings við byggðarlög. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert