Kostnaður lægri en áætlun

Frá þjóðfundinum 2010.
Frá þjóðfundinum 2010. mbl.is/Eggert

Þriðjungur áætlaðs kostnaðar við þjóðfundinn sem haldinn var um helgina var varið í þóknanir til þjóðfundarfulltrúa og í dvalar- og ferðakostnað fulltrúa af af landsbyggðinni. Framkvæmdastjóri fundarins býst við að kostnaðurinn verði heldur lægri en þær 91,7 milljónir sem áætlaðar voru.

Alls var 17,5 milljónum varið í þóknun til þjóðfundarfulltrúa eða um 18.000 krónum á mann. Dvalar- og ferðakostnaður fulltrúa af landsbyggðinni er áætlaður um 16 milljónir. Kostnaður vegna tækniumgjörðar og þjónustu er áætlaður 12 milljónir, leiga á Laugardalshöll og á húsgögnum var samtals tæplega 10 milljónir og kostnaður við veitingar ríflega sex milljónir. Laun starfsfólks voru um 6,2 milljónir. Sundurliðaða kostnaðaráætlun má sjá hér. 

Kostnaðaráætlunin var gerð í byrjun ágúst en engin fjárhagsáætlun lá fyrir þegar lög um þjóðfundinn voru sett í júní.  Þorsteinn Fr. Sigurðsson, framkvæmdastjóri þjóðfundar 2010 og framkvæmdastjóri undirbúningsnefndar stjórnlagaþings, segir að ákveðið hafi verið að greiða þjóðfundarfulltrúum þóknun og ferða- og dvalarkostnað til að reyna að tryggja að sem flestir úr úrtakinu fyrir fundinn myndu mæta á hann. Reynslan frá þjóðfundinum í fyrra sýndi að hætta væri á að fólk myndi síður mæta ef ekki yrði komið til móts við það með þessum hætti. Það hafi t.a.m. verið hætta á að fólk af landsbyggðinni myndi síður mæta ef ekki yrði greiddur ferða- og dvalarkostnaðar.

Líkt og á við um margar áætlanir hjá hinu opinbera er ekki talið líklegt að kostnaðaráætlunin fyrir þjóðfundinn standist.

Í þessu tilviki er reyndar reiknað með að kostnaðurinn verði lægri en áætlað var, að sögn Þorsteins. Raunar hafi verið erfitt að áætla kostnað enda hefði verið rennt blint í sjóinn við áætlunargerðina að mörgu leyti. 

Þeir sem héldu þjóðfundinn árið 2009 unnu að langmestu leyti að verkefninu í sjálfboðavinnu. Sumir sem unnu við þjóðfundinn í fyrra fengu vinnu við þjóðfundinn 2010 og segir Þorsteinn að þeir sem unnu að fundinum nú hafi alls ekki selt vinnu sína dýrt. Það kosti einfaldlega töluverða fjármuni að halda fund sem þennan þannig að vel takist til. Vissulega hefði verið ódýrara, svo dæmi væri tekið, að leigja stóra salinn í Háskólabíói og láta fulltrúa úti í sal rétta upp hönd ef þeir vildu tala. Slíkur fundur hefði hins vegar aldrei skilað almennilegri niðurstöðu.  „Öll þessi tækniumgjörð tryggði að fundurinn var frábær og heppnaðist vel að mati allra þeirra sem hann sátu. Fulltrúarnir voru ánægðir með að loksins ætti að hlusta á þjóðina. Og ég vona að alþingismenn geri það,“ segir Þorsteinn.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert