Kynna níu leiðir vegna skuldavandans

Alþingismenn fá tillögurnar í hendur í dag.
Alþingismenn fá tillögurnar í hendur í dag. Kristinn Ingvarsson

Starfshópur sem unnið hefur að tillögum um skuldavanda heimilanna hefur lagt fram tillögur um níu afmarkaðar leiðir til að takast á við vandann. Hópurinn leggur það í vald stjórnmálamanna að ákveða hvaða leið verður farin.

Tillögurnar voru kynntar á þingflokksfundi Samfylkingarinnar fyrr í dag og þingmenn VG hafa einnig fengið tillögurnar í hendur. Tillögurnar verða kynntar fyrir stjórnarandstöðunni síðar í dag og í framhaldinu gerðar opinberar.

Starfshópurinn lagði mat á  tillögurnar út frá þremur atriðum. Í fyrsta lagi hvað þær kostuðu. Í öðru lagi hversu mikið skuldir þeirra sem eru verst settir lækka og í þriðja lagi til hversu margra einstaklinga tillögur ná.

Meðal tillagana sem starfshópurinn skoðaði er tillaga Hagsmunasamtaka heimilanna um 15,5% almenna skuldalækkun. Einnig er metin svokölluð 110% leið sem byggir á að skuldir verði felldar niður upp að 110% af verðmæti fasteignar. Tvær útfærslur af henni eru metnar. Ennfremur er lagt mat á þá leið að hækka vaxtabætur og einnig hvaða áhrif yrðu af lækkun vaxta.

Hópurinn leggur mat á sex leiðir, en hann telur sig ekki hafa nægileg gögn í höndunum til að leggja mat á þrjár leiðir. Þessar þrjár leiðir eru í fyrsta lagi svokölluð LÍN-leið sem Þórólfur Matthíasson prófessor hefur mælt með, í öðru lagi að ríkið keypti öll skilgreind „slæm lán“, en hagfræðingarnir Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson hafa mælt með henni og í þriðja lagi er eignarnám og niðurfærsla skulda með  gerðardómi sem t.d. Gísli Tryggvason talsmaður neytenda hefur talað fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert