Vill stofna sjóð um leiðréttingu lána

Fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna í sérfræðingahópi, sem lagði mat á hugsanleg úrræði vegna skuldavanda, segir að líklega væri best að stofna sjóð utan um væntanlega leiðréttingu lána. Lánveitendur og ríkið stæðu að sjóðnum og fjármögnuðu hann.

Sérfræðingahópurinn skilaði skýrslu í gær en Marinó Njálsson, fulltrú Hagsmunasamtaka heimilanna, skilaði séráliti í dag. Segir hann, að engin ein leið munu nýtast til að leysa allan greiðsluvanda heimilanna. Nauðsynlegt verði að fara nokkrar leiðir eða hreinlega að setja alla í nýtt greiðslumat.

Skilvirkast væri að setja upp vefsvæði sem fjölskyldur hefðu aðgang að með, t.d. veflykli Ríkisskattstjóra eða auðkennislykil bankanna, þar sem hver og einn gæti mátað ólíkar leiðir að sinni stöðu. Vefurinn safnaði saman upplýsingum úr ólíkum áttum um efnahag viðkomandi, þannig að unnið væri sem mest með raungögn.

„Tvö mikilvægustu markmið þeirra aðgerða sem fara þarf í eru annars vegar að bæta rekstrarstöðu heimilanna, þannig að þeim verði gert kleift að koma fjármálum sínum á réttan kjöl og halda áfram að sinna því sem þeim er ætlað að gera í þessu þjóðfélagi. Hitt er að auka rekstrarhæfi fjármálakerfisins. Um þessar mundir er stór hluti lána heimila og fyrirtækja óvirk, þ.e. ekki er verið að greiða af þeim hvort sem það er vegna vanskila eða frystingar. Meðan þetta hlutfall er mikið yfir 1% af útlánum, þá er fjármálakerfinu hætta búin, hvað þá þegar vanskil eru rúmlega 10% eins og á við um lán heimilanna hjá bankakerfinu. Við þetta má síðan bæta þriðja markmiðinu, en það er að hægt sé að skapa þær aðstæður í samskiptum fjármálafyrirtækja og viðskiptavina þeirra, að báðir aðilar vilji viðhalda viðskiptasambandinu af fúsum og frjálsum vilja," segir Marinó í sérálitinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert