Reyndi að hughreysta Íra

Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar SteinarH

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, reyndi að hughreysta írska þingmenn sem eru á bresk-írska þinginu á eyjunni Mön í gær. Fór Helgi yfir stöðuna á Íslandi og samstarfið við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Að atvinnuleysi hafi minnkað hér á ný og gert sé ráð fyrir hagvexti á næsta ári. Þetta kemur fram á vef Irish Times í dag.

Sagði hann írsku þingmönnunum að það fælust einnig ákveðin tækifæri í kreppunni. Meðal annars að endurskipuleggja hlutina, að gera betur.

Á Íslandi hafi rannsóknarnefnd Alþingis skilað skýrslu um hverjir báru ábyrgð á bankakreppunni og kosið verði til stjórnlagaþings um næstu helgi. Það muni síðan endurskoða stjórnarskrána.

Helgi segir að sambandið við AGS hafi hingað til farið vel. Sjónarmiðin séu stundum ólík en hann teldi að þeir hefðu skilning á stöðunni á Íslandi.

Á Íslandi hafi ekki verið dregið úr opinberum útgjöldum árið 2009 svo kreppan yrði ekki dýpri en hún varð. Stefnt sé að hallalausum ríkisrekstri eftir þrjú ár. Skattar hafi verið hækkaðir á Íslandi og séu nú sambærilegir því sem var árið 2003.

Helgi ræddi aðildarumsókn að ESB við blaðamann Irish Times og það hversu lítill gjaldmiðill íslenska krónan er. Það hafi ýmsir nýtt sér og braskað með krónuna fyrir hrun. Hann segir að það hafi hins vegar dregið úr áhuga almennings á að ganga í ESB eftir að slæm staða Grikkja og nú Íra hafi komið í ljós.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert