Allt rangt við þetta frumvarp

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Ómar

„Það er allt rangt við þetta frumvarp," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðu um frumvarp dóms- og mannréttindaráðherra um breytingar á lögum um landsdóm.

Bjarni sagði, að þingmannanefnd, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hefði komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til að breyta lögum um landsdóm og ráðherraábyrgð. Því mætti segja, að ráðherrann kæmi nú með tillögu, sem gengi þvert á vilja Alþingis og það eftir að þingið hefði tekið ákvörðun um að höfða mál á hendur fyrrverandi ráðherra.

„Það er falskur hljómur í því, að ráðherra skuli hafa afskipti af því eftir að ákært hefur verið," sagði Bjarni.

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, sagði að kveðið væri á um samfellu í málsmeðferð í mannréttindasáttmála Evrópu og frumvarpinu væri ætlað að tryggja það. Þá væri verið að færa ákveðin tæknileg atriði til nútímans.

„Ef Alþingi líkar ekki þetta frumvarp þá hafnar Alþingi frumvarpinu," sagði Ögmundur. Bjarni sagði, að það væri einmitt mergurinn málsins, að Alþingi ætti að fjalla um málið. Þingið væri nýbúið að komast að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti að breyta lögunum og samt kæmi ráðherra fram með tillögu um lagabreytingu. 

Frumvarp um breytingar á lögum um landsdóm

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert