Mikil reiði meðal S-Kóreumanna

Lífið gengur sinn vanagang í Seoul í Suður-Kóreu þrátt fyrir vaxandi ógn frá nágrönnunum í norðri og átök úti fyrir ströndum landsins í gær. Mikil reiði er hinsvegar meðal almennings yfir sprengjuárás Norður-Kóreumanna, sem þeir telja fólskulega. Þetta segir Sverrir Örn Sverrisson, sem nemur nú kóresku í undirbúningi fyrir mastersnám í Seoul.

Nú hefur komið í ljós að 2 almennir borgarar létust í árásinni.

„Flest fólk veit betur en að grípa til víðtækra hernaðaraðgerða, það myndi ekki skila neinu nema meira mannsfalli," segir Sverrir. Flestir vilji hinsvegar grípa til viðskiptalegra þvingana gagnvart norðrinu, endu séu suður-kóresk fyrirtæki mörg með verksmiðjur í Norður-Kóreu, og landið töluvert háð fjárhagslegum stuðningi og matargjöfum úr suðri. „Suður-Kóreumenn eru vanir stympingum og áróðri frá Norður-Kóreumönnum, en þessi árás var gerð á almenna borgara og er því reiðin mikil," segir Sverrir.  

Sjálfur hefur hann búið í Seoul síðan í ágúst og segist fremur rólegur yfir ástandinu. „Þó er ég búinn að kynna mér bara til vonar og vara hvar sendiráð Norðurlandanna eru hér í Seoul. Vissulega er ég mjög reiður yfir þessu, ég er mjög mótfallinn stríði og stríðsrekstri, stríð skilar aldrei neinu." Árás Norður-Kóreu í gær er sú alvarlegasta í marga áratugi. Í dag kom í ljós að tveir almennir borgarar létust í árásunum, en lík þeirra fundust á eyjunni fyrir stuttu. Að auki létust tveir sjóliðar, tugir særðust og fjöldi húsa brann til grunna.

Bandaríkin og Suður-Kórea tilkynntu í dag að innan skamms yrðu haldnar heræfingar á sjó úti fyrir ströndum Kóreuskaga. Bandaríkjamenn heita því að styðja við bak yfirvalda í Seoul gegn vaxandi ógn í Norður-Kóreu. Sverrir segist svolítið áhyggjufullur yfir þessari fyrirhuguðu heræfingu. „Hún verður einmitt í Gulahafinu sunnan þess sem átökin áttu sér stað. Þetta gæti ögrað valdamönnum í Norður-Kóreu  frekar. Svo hefur Suður-Kórea frestað matvælaaðstoð sem átti að fara með Rauða krossinum á þau svæði sem fóru verst út úr vatnsflóðunum í haust í Norður-Kóreu. Það sem ég myndi helst vilja sá er að Kína beiti sér af meiri krafti í málamiðlun milli landanna."

Sverri bendir á að allir karlmenn í Suður-Kóreu þurfi að gegna herskyldu í 22 mánuði á milli tvítugs og þrítugs. Flestir hans vinir hafi gert það og verði kallaðir til ef til stríðs kemur. Allt í allt eru um 700.000 starfandi hermenn í Suður-Kóreu, auk stuðnings um 30.000 manna herliðs Bandaríkjamanna og NATO. Í Norður-Kóreu eru hinsvegar um 1.000.000 starfandi hermenn auk 8.000.000 manna varaliðs.
Reykur stígur til himins á eyjunni Yeonpyeong sem logaði eftir …
Reykur stígur til himins á eyjunni Yeonpyeong sem logaði eftir sprengjuárás Norður-Kóreumanna. Fjórir létust og tugir særðust. YONHAP
Sverrir Örn Sverrisson ásamt suður-kóreskri kærustu sinni, Young Eun Jang.
Sverrir Örn Sverrisson ásamt suður-kóreskri kærustu sinni, Young Eun Jang.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert