Bónus oftast með lægsta verðið

Lægsta verðið var oftast í Bónus.
Lægsta verðið var oftast í Bónus.

Bónus var oftast með lægsta verðið og Kostur oftast með hæsta verðið í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í fjórum lágvöruverðsverslunum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri á mánudag.

Af 55 vörutegundum sem skoðaðar voru, var Bónus með lægsta verðið í 34 tilvikum en að sögn ASÍ reyndist oft  lítill verðmunur vera á milli verslunar Bónus og Krónunnar. Af þeim 48 vörutegundum sem fáanlegar eru í báðum verslunum var einnar krónu verðmunur í 20 tilvikum, tveggja krónu munur í 3 tilvikum og sama verð í 2 tilvikum. Kostur var með hæsta verðið í 27 tilvikum.

Mesti verðmunurinn í könnuninni var á ódýrustu fáanlegu Basmalti grjónunum sem kostuðu 298 kr./kg í Bónus en voru dýrust í Nettó á 678 kr./kg sem er 128% verðmunur. Má sjá verðmun um og yfir 100% í fleiri tilvikum t.d. Head&Shoulder´s, nammibar, Nescafé gull, sveskjusultu og Kjarna kókosolíu.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á Cadbury´s kakói sem kostaði 298 kr. í Bónus og Nettó en krónu meira hjá Krónunni. Þegar skoðaðir eru vöruflokkarnir í könnuninni má sjá að minnstur verðmunur var á mjólkurvörum á milli verslana.

Í vörukörfunni eru 55 almennar neysluvörur til heimilisins, t.d. mjólkurvörur morgunkorn, grænmeti, kjöt, drykkjavörur,  pakkavörur, dósamatur og fleira.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Holtagörðum, Krónunni Granda, Nettó Akureyri og Kosti Kópavogi.

Vefur ASÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert