Skuldaaðgerðir að skýrast

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Árni Sæberg

„Þessir fundir hafa verið ágætir en því miður finnst mér vera of langt á milli bankanna og þeirra leiða sem stjórnvöld þurfa að fara í þessu máli,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir um mögulegar aðgerðir til handa skuldugum heimilum í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi fyrir stundu.

Jóhanna sagði að það myndi skýrast í dag eða á morgun hvort slík samstaða myndi nást. Hún svaraði gagnrýni Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem spurði um í hvaða farvegi vinna stjórnarinnar væri, með því að setja spurningarmerki við tillögur sjálfstæðismanna.

„Það er aðeins ein tillaga og það er að lengja í lánum,“ sagði Jóhanna og átti við sjálfstæðismenn.

Sagði Jóhanna fulltrúa stjórnvalda hafa átt þrjá fundi með lífeyrissjóðunum og bönkunum á síðustu dögum þar sem leitað var leiða til að koma skuldugum heimilum til hjálpar. Jóhanna sagði að það myndi skýrast í dag hvort samkomulag næðist við bankana. „Ég vona enn að það náist þótt vonirnar hafi dofnað á síðustu tveimur dögum," sagði Jóhanna.

Bjarni sagði að ríkisstjórnin sýndi bönkunum ótrúlegt langlundargeð. „Fólk vill ekki sjá forsætisráherrann bíða eftir svörum Fólk er að bíða eftir aðgerðum," sagði Bjarni og sagði að Alþingi ætti að segja lög og reglur. 

Jóhanna sagði að talið hefði verið nauðsynlegt að reyna að ná samningum við fjármálastofnanir og fara ekki í aðgerðir í andstöðu við bankana sem gætu leitt til skaðabótakrafna á hendur ríkisins.

Hún sagðist ekki hafa útilokað lagasetningu, sem hjálpaði til þess að fara í aðgerðir fyrir skuldsett heimili. Lágmark væri þá, að bankarnir hjálpi til við fjármögnun slíkra aðgerða vilji þeir ekki vera aðilar að samkomulagi um skuldaaðlögun. 

Jóhanna minnti á að fyrir hrun hefðu um 16.000 heimili verið í vanskilum samanborið við um 22.000 heimili nú. Það væri „allt of mikið“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert