Vill gögn um aðkomu saksóknara að frumvarpi

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. mbl.is/Ómar

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur skrifað Ögmundi Jónassyni, dómsmálaráðherra, bréf þar sem hann óskar eftir því að fá afrit allra fyrirliggjandi gagna um samskipti saksóknara Alþingis og ráðuneytisins við gerð frumvarps um landsdóm, sem Ögmundur mælti fyrir á þinginu á miðvikudag.

Einnig óskar Geir eftir að fá upplýsingar um og afrit af öllum samskiptum ráðuneytisins við forseta landsdóms af sama tilefni.

Þá hefur Geir sent Sigríði J. Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, bréf þar sem hann óskar eftir nánari upplýsingum um aðkomu hennar að samningu lagafrumvarpsins.

Tilefnið er, að Ögmundur sagði, í umræðum um frumvarpið, að ein grein frumvarpsins hefði verið borin undir saksóknara Alþingis.  

Geir segir í bréfinu til ráðherra, að þar sem honum hafi ekki verið skipaður verjandi í málinu, þrátt fyrir skýlaus ákvæði 15. greinar laga um landsdóm, skrifi hann sjálfur bréfið.

Geir skrifaði einnig bréf til Ingibjargar Benediktsdóttur, forseta landsdóms, þar sem hann mótmælti því harðlega. að saksóknari Alþingis sé gerður að umsagnaraðila um kröfu hans um skipun verjanda. Fyrir slíku sé engin lagastoð og í lögum hvergi gert ráð fyrir atbeina saksóknara að þeirri skipun.

Þá segist Geir Þá telja afar óeðlilegt, að forseti landsdómsins hafi afskipti af breytingum á lögum um dóminn eftir að mál hefur verið höfðað á grundvelli laganna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert