Glitnismáli vísað frá í New York

BOB STRONG

Málflutningur um frávísunarkröfu í Glitnismálinu fór fram síðdegis í New York. Dómari komst að þeirri niðurstöðu að vísa bæri málinu frá á þeim forsendum að allir málsaðilar séu íslenskir og því beri að flytja málið á Íslandi. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Málaferlin í New York eru höfðuð af slitastjórn Glitnis gegn Jóni Ásgeiri, áður helsta hluthafa bankans, Lárusi Welding, áður forstjóra Glitnis, Þorsteini Jónssyni, áður stjórnarformanni, Jóni Sigurðssyni, áður stjórnarmanni Glitnis og aðstoðarforstjóra FL Group, Pálma Haraldssyni, áður hluthafa í Glitni, Hannesi Smárasyni, áður forstjóra FL Group, Ingibjörgu Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs, og PricewaterhousCoopers, áður endurskoðanda Glitnis. 

Krefst slitastjórn Glitnis bóta sem nema  tveimur milljörðum Bandaríkjadala, eða nærri 229 milljörðum króna. Kjarni þeirrar málsóknar er útboð skuldabréfa upp á einn milljarð dala. Voru bréfin seld í september árið 2007 til fjárfesta í New York sem slitastjórn segir að hafi verið blekktir varðandi fjárhagslega áhættu Glitnis. Bent er á að af um níu þúsund kröfuhöfum bankans eru nærri 90% frá öðrum löndum en Íslandi.

Slitastjórn Glitnis lagði í haust fram greinargerðir fyrir dómstól í New York þar sem færð eru rök fyrir því að ekki eigi að vísa skaðabótamáli Glitnis gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fleirum frá dómi líkt og þeir sem málið er höfðað gegn fóru fram á.

Var þar meðal annars vísað til þess, að þeir sem málið beinist gegn hafi sagt að margir þeirra, sem þeir þyrftu að kalla fyrir sem vitni, hafi lýst því yfir að þeir myndu ekki fara til New York. Í greinargerð Glitnis er hins vegar sagt, að meðal annars Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Alexander K. Guðmundsson, fyrrverandi fjármálastjóri, hafi báðir lýst því yfir að þeir séu reiðubúnir til að mæta fyrir réttinum í New York. 

Í greinargerð slitastjórnarinnar eru einnig taldir upp fleiri einstaklingar, sem hafi lýst því yfir að þeir séu tilbúnir til að bera vitni. 

Í einni af greinargerðum slitastjórnarinnar, sem lagðar voru fyrir dóminn í september, segir að umræddir einstaklingar hafi, undir forustu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, misnotað stöðu sína í Glitni til að afla fjár á fjármálamarkaði í New York í september 2007. Sú fjáröflun hafi gert þeim kleift að halda áfram að ræna Glitni innanfrá.

Slitastjórnin segir að í ágúst 2007 hafi umræddir einstaklingar sóað mestu lausafé Glitnis með því að lána tengdum aðilum gríðarlegar fjárhæðir. Þetta hafi byrjað í apríl 2007 þegar Jón Ásgeir náði valdi á bankanum.

Til að afla fjár hafi umræddir einstaklingar komið til New York og lagt fram rangar upplýsingar fyrir hugsanlega fjárfesta. Meðal annars hafi þeir leynt því hve bankinn hafði lánað mikið til tengdra aðila. Hefði það komið fram í skuldabréfaútboðinu í New York hefði þeim ekki tekist að afla fjár til að halda áfram að fjármagna ólögleg viðskipti sín. 

Þá vísar slitastjórnin  á bug fullyrðingum Pálma Haraldssonar og Hannesar Smárasonar að þeir hafi engin tengsl við New York.  Í einni af greinargerðunum er meðal annars vísað til þeirrar fullyrðingar Pálma að flugfélagið Iceland Express tengist ekki með neinum hætti þessu máli. Þetta sé einfaldlega rangt því Pálmi hafi notað fé frá Glitni til að kaupa flugfélagið - fé sem hefði ekki verið handbært hefði bankinn ekki farið í útboðið í New York.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert